Fulltrúar Evrópuþingsins til Íslands

Evrópuþingið í Brussel.
Evrópuþingið í Brussel. Reuters

Til stendur að sendinefnd utanríkismálanefndar Evrópuþingsins komi í opinbera heimsókn til Íslands 7. til 9. september í haust í tengslum við umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu. Fram kemur í bréfi til forseta þingsins, Jerzy Buzek, sem mbl.is hefur undir höndum að upphaflega hafi hugmyndin verið að heimsækja Ísland í sumar en vegna sumarleyfis Alþingis hafi það ekki reynst mögulegt.

Fram kemur í bréfinu að fulltrúar í sendinefndinni vilji geta rætt við kollega sína hér á landi „um sjónarmið þeirra og áhyggjur af aðild að ESB“ sem fyrst í viðræðuferlinu, en eginlegar viðræður um aðild Íslands hófust sem kunnugt er formlega síðastliðinn mánudag. Ekki kemur þó fram hvaða sjónarmið og áhyggjur átt er við í því sambandi.

Fundað með íslenskum ráðamönnum

Þá kemur ekki fram í bréfinu hverjir muni skipa sendinefndina. Hins vegar fylgir uppkast að dagskrá heimsóknarinnar en þar kemur fram að sendinefndin muni funda með Ólafi Ragnari Grímssyni forseta Íslands, Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra, Össuri Skarphéðinssyni utanríkisráðherra, Steingrími J. Sigfússyni fjármálaráðherra, Árna Páli Árnasyni efnahags- og viðskiptaráðherra og Jóni Bjarnasyni sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

Þá mun sendinefndin einnig sitja fundi með Árna Þór Sigurðssyni formanni utanríkismálanefndar Alþingis og fulltrúum í nefndinni og Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur forseta Alþingis auk þess sem rætt verður við blaðamenn, fulltrúa atvinnurekenda og launþega og loks forsvarsmenn stuðningsmanna aðildar að ESB og andstæðinga hennar. Þá verða Þingvellir heimsóttir og Hellisheiðarvirkjun.

mbl.is