Vilja fund um útboð á Drekasvæðinu

Mynd af Drekasvæðinu sem var kortlagt í júní 2008.
Mynd af Drekasvæðinu sem var kortlagt í júní 2008. Af vef Hafró

Þingmennirnir Jón Gunnarsson og Tryggvi Þór Herbertsson, Sjálfstæðisflokki, og Gunnar Bragi Sveinsson, Framsóknarflokki, hafa óskað eftir því að boðað verði sem fyrst til fundar í iðnaðarnefnd til að ræða stöðu útboðsmála vegna olíuleitar á Drekasvæðinu.

Fresta þarf útboði á olíuleit á Drekasvæðinu þar sem ekki tókst að afgreiða nauðsynleg frumvörp fyrir þinglok en samkvæmt áætlun áttu útboð að hefjast 1. ágúst. Jón segir tilganginn með fundinum fyrst og fremst þann að fá upplýsingar um það hversu skaðleg áhrif frestunin muni hafa.

„Eins og hefur komið fram hjá orkumálastjóra í fjölmiðlum þá telur hann þetta mjög skaðlegt fyrir verkefnið. Þannig að okkar hugmynd er að fara yfir málið sem fyrst og það verði þá metið strax í framhaldinu hvort ekki sé ástæða til að þingið komi saman til að klára þetta mál fyrst og fremst. Og það væri þá hægt að taka önnur mál fyrir í leiðinni sem augljóslega hefði þurft að klára,“ segir Jón og vísar til þeirrar hugmyndar Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins, um að kalla þingið saman á ný til að klára knýjandi mál sem ekki hefðu fengið afgreiðslu fyrir þinglok.

mbl.is

Bloggað um fréttina