Fimm fara á ólympíuleika

Ólympíuliðið í eðlisfræði 2011. Frá vinstri: Sigtryggur Hauksson, Magnús Pálsson, …
Ólympíuliðið í eðlisfræði 2011. Frá vinstri: Sigtryggur Hauksson, Magnús Pálsson, Konráð Þór Þorsteinsson, Arnór Hákonarson, Atli Þór Sveinbjarnarson

Fimm íslensk ungmenni keppa á Ólympíuleikunum í eðlisfræði sem haldnir verða dagana 10.-18. júlí  í Bangkok í Taílandi.

Leikarnir eru alþjóðleg keppni framhaldsskólanema og taka lið
frá 86 löndum þátt að þessu sinni. Ísland hefur sent nemendur á
Ólympíuleikana í eðlisfræði á hverju sumri í tuttugu og sjö ár en
tveir nemendur kepptu á leikunum í Svíþjóð 1984. Fyrir þrettán árum
voru leikarnir svo haldnir hér á landi.

Fyrir hönd Íslands fara þetta árið fimm keppendur, þeir Arnór
Hákonarson, Atli Þór Sveinbjarnarson og Konráð Þór Þorsteinsson úr
Menntaskólanum í Reykjavík, og Magnús Pálsson og Sigtryggur Hauksson
úr Menntaskólanum við Hamrahlíð. Atli lauk þriðja ári menntaskóla í
vor en hinir hafa nýlokið stúdentsprófi. Tveir eðlisfræðingar, þeir
Martin Swift og Viðar Ágústsson, eru fararstjórar liðsins

Keppendur voru valdir á grundvelli árangurs í landskeppninni í
eðlisfræði. Forkeppni hennar var í febrúar í framhaldsskólum um allt
land og tóku um 150 nemendur þátt í henni og var 14 nemendum boðið til
úrslitakeppni í Háskóla Íslands í lok mars.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert