Forlagið sektað um 25 milljónir

Jóhann Páll Valdimarsson útgefandi Forlagsins
Jóhann Páll Valdimarsson útgefandi Forlagsins mbl.is/Ómar Óskarsson

Bókaútgáfan Forlagið þarf að greiða 25 milljónir króna í stjórnvaldssekt fyrir að hafa brotið skilyrði sem sett voru af Samkeppniseftirlitinu er Forlagið varð til við samruna JPV útgáfu og Vegamóta árið 2008.

Forlagið er eitt stærsta útgáfufyrirtæki Íslands. Það gefur út bækur undir merkjum JPV, Máls og menningar, Vöku-Helgafells og Iðunnar.

Samkeppniseftirlitið sá meinbugi á samrunanum en sátt var gerð við Samkeppniseftirlitið í febrúar 2008 til þess að samruninn gæti átt sér stað og Forlagið orðið til.

Tók Forlagið þátt í því að móta skilyrði sem ætlað var að draga úr samkeppnishamlandi áhrifum samrunans og félagið taldi sig geta starfað eftir. Forlagið hefur nú brotið gegn þessum skilyrðum. Samkeppniseftirlitið leggur 25 milljónir króna stjórnvaldssekt á Forlagið af þeim sökum, samkvæmt upplýsingum á vef Samkeppniseftirlitsins.

Forlagið braut gegn skilyrði sem kveður á um bann við birtingu leiðbeinandi endursöluverðs til smásala. Forlagið braut einnig gegn skilyrði um að Forlaginu sé óheimilt að veita endurseljendum afslátt frá heildsöluverði bóka sinna nema Forlagið geti með óyggjandi hætti sýnt fram á kostnaðarlegt hagræði af viðskiptunum og að hagræðið sé í samræmi við afsláttinn.

Gögn málsins leiddu í ljós að fyrir jólin 2009 hafi Forlagið birt smásöluaðilum leiðbeinandi endursöluverð ýmist á pöntunar- og skráningarblöðum sem fylgdu bókasendingum til endursöluaðila eða í vefverslun sinni á heimasíðu félagsins. Lögum samkvæmt ber Forlaginu, sem smásöluaðila, að birta í vefverslun sinni endanlegt verð til neytenda eða með öðrum orðum það verð sem neytendur þurfa að greiða vilji þeir kaupa vöruna.

Í staðinn birti Forlagið tvenns konar verð, annars vegar smásöluverð (leiðbeinandi endursöluverð) og hins vegar afsláttarverð, en afsláttarverðið er það verð sem neytendur þurfa að greiða vilji þeir kaupa vöruna (endanlegt verð).

Þá gat Forlagið ekki sýnt fram á með óyggjandi hætti að afsláttarkjör til endursöluaðila hafi verið veitt á grundvelli kostnaðarlegs hagræðis, en kveðið var á um það í skilyrðum sáttarinnar sem Forlagið tók þátt í að móta og gekkst undir árið 2008. Þá var það einnig skilyrði fyrir samrunanum að samræmi þyrfti að vera á milli afsláttarkjara og þess kostnaðarlega hagræðis sem hlytist af viðskiptunum. Skilyrði um kostnaðarlegt hagræði að baki afsláttarkjörum var til þess gert að tryggja jafnræði endursöluaðila gagnvart hinu nýja markaðsráðandi félagi sem stofnaðist með samrunanum 2008. Ennfremur var það mat Samkeppniseftirlitsins að meiri munur væri á þeim afsláttarkjörum sem Forlagið veitti viðskiptavinum sínum en hægt væri að réttlæta með rökum um kostnaðarlegt hagræði eða með öðrum orðum að Forlagið hafi ekki gætt jafnræðis milli viðskiptavina sinna við veitingu afsláttarkjara," segir í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins.

mbl.is