Fréttaskýring: Fjalladrottningin minnir á sig

Morgunblaðið/ÞÖK

Enn og aftur minnir drottning íslenskra eldfjalla á tilveru sína en síðustu daga hafa borist fréttir af óvenjulegum hreyfingum í og við Heklu. Jarðfræðingar segja fjallið tilbúið til að gjósa en Hekla hefur gosið nokkuð reglulega, á tíu ára fresti, síðan 1970. Síðast gaus í Heklu þann 26. febrúar árið 2000. Vísindamenn fara þó varlega í að draga ályktanir af undanförnum hreyfingum í Heklu. Hreyfingarnar hafa mælst með nýjum mælitækjum sem ekki voru til staðar við fyrri eldgos. Ekkert samband þurfi að vera milli mælanlegra hreyfinga og væntanlegs eldgoss. Hreyfingarnar hafa nú gengið til baka og eru vart mælanlegar.

Mælingar á þrýstingi kvikunnar benda þó með óyggjandi hætti til þess að þrýstingurinn sé orðinn meiri en hann var fyrir síðustu eldgos í fjallinu. Af því má draga ályktun um væntanlegt eldgos. Erfitt er að spá um nákvæma tímasetningu þar sem eldgos í Heklu hafa sjaldan gert boð á undan sér.

Óþarfi að óttast hamfarir

Páll Einarsson, jarðeðlisfræðingur hjá Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands, segir fátt benda til yfirvofandi hamfara. „Hræringarnar sem mældust á mánudaginn hafa heldur gengið til baka, þetta voru litlar hreyfingar en þær mældust þó yfir dálítið svæði,“ segir Páll. Hann segir hræringarnar ekkert annað en létta áminingu um að menn fari yfir viðbragðsáætlanir. Það sé staðreynd að Hekla muni gjósa, jafnvel á næstu mánuðum.

„Það er greinilegt út frá hallamælingum og hæðarmælingum síðustu áratuga að Hekla hefur verið að undirbúa gos alveg frá því hún gaus síðast. Síðustu árin hefur þrýstingurinn í kvikunni verið kominn yfir það sem hann var á undan síðustu gosum,“ segir Páll. Hekla sé tilbúin í gos. Hann segir þó flest benda til að slíkt gos yrði frekar lítið.

Síritandi GPS-mælistöðvum hefur undanfarin ár verið komið upp í nágrenni Heklu. Svipuðuðum mælitækjum hefur einnig verið komið upp við Eyjafjallajökul, Kötlu og víðar. Páll segir að vísindamenn séu enn að læra á hvað merkingarnar þýði. Ekki séu til sambærilegar mælingar frá fyrri Heklugosum.

Páll segir Heklu vera mjög óvenjulegt eldfjall á íslenskan mælikvarða og í raun sé hún ein sinnar tegundar á landinu. Til að mynda sé kvikan öðruvísi en annars staðar.

Slapp naumlega á hlaupum

Heklugos hafa voru nokkuð tíð á 20. öld. Á sögulegum tíma hefur slíkt þó ekki alltaf verið raunin. Fjallið hefur, svo vitað sé, gosið 18 sinnum frá landnámi. Páll segir dæmigerða hegðun Heklugosa áður fyrr hafa verið eitt til tvö gos á hverri öld. Þá hafi gosin verið mun öflugri og tilkomumeiri. Hekla hafi síðast gosið stóru gosi árið 1947.

„Það virðist vera sem framleiðnin á gosefnum sé stöðug og jöfn en eftir því sem fjallið gýs oftar þeim mun minna kemur í hvert skipti,“ segir Páll. Hann vill þó ekki útiloka stórt gos en það sé þó ólíklegt. Tjón af völdum Heklugosa hafa verið fá í síðustu gosum. Helst eru elgosin hættuleg göngufólki. Undanfarin ár hafa fjallgöngur á Heklutind orðið tíðari en farnar eru nær daglegar ferðir á Heklu yfir sumartímann. Í Heklugosinu 1947 lést náttúrufræðingurinn Steinþór Sigurðsson. Hann var við rannsóknir og kvikmyndatöku í fjallinu þegar hraunmoli hæfði hann. Í gosinu 1980 slapp svo breskur jarðfræðinema naumlega á hlaupum undan glóandi hraunmolum.

Göngufólk getur verið í hættu

Skammur fyrirvari hefur einkennt síðustu Heklugos. Fyrir Heklugosið árið 2000 liðu 79 mínútur frá fyrsta skjálfta og þar til elgos hófst. Það er þó ekkert miðað við gosið 1970 þegar aðeins 25 mínútur liðu frá fyrsta skjálfta þar til eldgos hófst. „Við höfum verið tilbúin að taka á móti Heklugosi síðustu þrjú árin og erum alveg undir það búin,“ segir Anders Hansen, sem rekur Heklusetrið á Leirubakka. Hann segist þó ekki óttast neitt sérstaklega eldgos nú frekar en aðra daga. „Við höfum undanfarið varað fólk við því að ganga á fjallið. Hins vegar hafa engar opinberar viðvaranir verið gefnar út og engin skilti segja til um hættuna,“ segir Anders. Sé fólk á vitlausum stað og á vitlausum tíma geti það verið í mikilli hættu. „Síðast var gefin hálftíma viðvörun í útvarpi og því engan veginn sjálfgefið að það nái til allra sem eru á fjallinu.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert