Sátt í þvagleggsmáli

Lögreglustöðin á Selfossi.
Lögreglustöðin á Selfossi. mbl.is/GSH

„Það var viðurkennd bótaskylda og samkomulag tókst um bætur til handa konunni,“ segir Jón Egilsson, lögmaður konu sem þvinguð til þess að gefa þvagsýni um þvaglegg af lögreglunni á Selfossi árið 2007. Aðspurður segir hann upphæð bótanna ekki verða gefna upp en gengið var frá samkomulaginu þann 5. júlí síðastliðinn.

Forsaga málsins er sú að konan var stöðvuð af lögreglunni í mars 2007 fyrir ölvunarakstur en hún hafði ekið bifreið sinni út af við Þingborg. Var hún í kjölfarið þvinguð með valdi í þvagsýnatöku með þvagleggi á lögreglustöðinni á Selfossi.

Konan var í framhaldi af málinu dæmd í Héraðsdómi Suðurlands fyrir ölvunarakstur og var niðurstaðan síðan staðfest í Hæstarétti. Umboðsmaður Alþingis tók málið upp af eigin frumkvæði en málið þótti umdeilt á sínum tíma og var mikið fjallað um það á tímabili. Komst embættið að þeirri niðurstöðu að lögreglan hefði ekki gætt meðalhófs í málinu auk þess sem hugsanlega hefði verið brotið gegn mannréttindum konunnar samkvæmt Mannréttindasáttmála Evrópu.

Jón segir að skjólstæðingur hans sé sérstaklega þakklátur embætti Umboðsmanns Alþingis vegna frumkvæðis hans í málinu. Að hans sögn megi sannarlega segja að embættið hafi sannað gildi sitt í þessu máli og það jafnvel eftir að Hæstiréttur hafði tekið málið fyrir. Þá sé hún einnig þakklát Ögmundi Jónassyni, innanríkisráðherra, fyrir að hafa hitt hana og rætt málið og sýnt henni skilning og sama eigi við um ríkislögmann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert