Barkaþeginn fluttur á Landspítala

Frá skurðaðgerðinni, sem gerð var á Karolinska sjúkrahúsinu í Stokkhólmi.
Frá skurðaðgerðinni, sem gerð var á Karolinska sjúkrahúsinu í Stokkhólmi. www.karolinska.se

Sjúklingur sem gekkst undir aðgerð þar sem gervibarki var græddur í hann, var fluttur til Landspítala í dag frá Karolinska sjúkrahúsinu í Stokkhólmi. Ferðin gekk vel og er líðan hans eftir atvikum.

Sjúklingurinn, sem heitir Andemariam Teklesenbet Beyene og er meistaranemi í jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands, mun gangast undir frekari rannsóknir á lungnadeild Landspítala á næstu dögum. Beyene er fyrsti maðurinn sem fær ígræddan barka úr gerviefni og stofnfrumum.

Að sögn Ólafs Baldurssonar framkvæmdastjóra lækninga á Landspítala er um er að ræða afar sérstakt og flókið tilfelli sem krafðist samvinnu lækna og vísindamanna í Stokkhólmi, London, Boston og á Landspítala. Tomas Guðbjartsson, yfirlæknir á skurðlækningasviði Landspítala, tók þátt í skurðaðgerðinni og fylgdi sjúklingnum til Íslands í dag. Mikið hefur verið fjallað um ígræðsluna í fjölmiðlum um allan heim í dag enda í fyrsta skipti sem látið er reyna á nýjustu framþróun í örtæknivísindum og stofnfrumulíffræði með þessum hætti.

mbl.is