Ummæli dæmd dauð og ómerk

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt dauð og ómerk tiltekin ummæli í frétt sem DV birti um danskan mann í nóvember í fyrra. Þá var Jón Bjarki Magnússon, blaðamaður DV, dæmdur til að greiða Dananum 500 þúsund krónur í miskabætur.

Kim Gram Laursen krafðist þess að fimm ummæli í fréttinni yrðu dæmd dauð og ómerk, en því var m.a. haldið fram að Laursen hefði ofsótt íslenska barnsmóður sína og þrjár dætur, og að hann hafi beitt þær bæði líkamlegu og andlegu ofbeldi.

Fram kemur í dómi héraðsdóms að maðurinn og konan deila nú um forsjá dætranna.

Laursen hélt því fram að blaðamaðurinn hefði vegið með alvarlegum hætti að sér með ummælum sem birtust í DV, en hann var ítrekað nafngreindur í fréttinni.

Blaðamaðurinn mótmælti því ekki að ummæli fælu í sér ærumeiðandi aðdróttanir í skilningi almennra hegningarlaga og að þau væru ósönnuð. Sýknukrafa hans byggðist á því að hann bæri ekki ábyrgð á ummælunum þar sem þau væru réttilega höfð eftir viðmælendum hans. Vísaði hann í því samhengi til þess að umfjöllunarefni greinarinnar hefði átt erindi til almennings og nyti því verndar tjáningarfrelsisákvæðis stjórnarskrárinnar og mannréttindasáttmála Evrópu.

Héraðsdómur féllst ekki þessi sjónarmið blaðamannsins. Hann segir að umrædd grein fjalli ekki almennt um ofbeldi gegn börnum eða hvernig hið opinbera taki á málum sem varði ofbeldi gegn börnum í tengslum við forsjárdeilur foreldra. Á engan hátt sé reynt að varpa mynd á hvernig háttað sé meðferð forsjármála eða afhendingarmála t.d. með viðtölum við sérfræðinga. Einungis sé um að ræða umfjöllun um tiltekið mál, þ.e. kröfu um afhendingu dætra mannsins til Danmerkur.

Dómstóllinn komst að þeirri niðurstöðu að umfjöllunin hafi falið í sér ærumeiðingar í garð Danans.

mbl.is