Engin merki um gos

Hlaupið hefur farið víða um sandinn.
Hlaupið hefur farið víða um sandinn. mbl.is/Jónas Erlendsson

Jarðvísindamenn sem flugu yfir Mýrdalsjökul í morgun sáu sprungur í tveimur sigkötlum syðst í Mýrdalsjökli. Engin merki voru um gos í jöklinum. Einar Kjartansson jarðeðlisfræðingur telur sennilegast að hlaupið í Múlakvísl sé búið.

Jarðvísindamenn flugu yfir Mýrdalsjökul í morgun. Skýjað var yfir jöklinum, en vísindamönnum tókst þó að sjá niður í Kötluöskjuna.

„Það eru merki um hlaup úr tveimur sigkötlum syðst í Kötluöskjunni og merki um hreyfingu víðar,“ sagði Einar.

Hlaupið sem kom í Múlakvísl í nótt kom úr Höfðabrekkujökli og segir Einar að jökullinn sé talsvert brotinn þar sem hlaupið kom fram. Jökulís sé strandaður nokkuð víða sem bendi til að það sé að draga úr hlaupinu.

Einar segir að engin merki hafi sést um eldgos í Kötlu. Hann vill þó ekki útiloka að eldgos geti hafa hafist í nótt. Sjálfvirkir óróamælar Veðurstofunnar sýni breytingar sem geti bent til að lítið eldgos hafi hafist í nótt. Einar segir það þó alls ekki víst að gos sé hafið.

„Sennilegast er að þetta hlaup sé búið, við fylgjumst áfram vel með því sem er að gerast.“

Jarðvísindamenn skoðuð Mýrdalsjökul á miðvikudaginn, en þá sáust engin merki um jarðhræringar í jöklinum. Mælar gáfu hins vegar til kynna óróa og því hefur vel verið fylgst með Mýrdalsjökli síðustu daga.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert