Fréttaskýring: Róttæk drög að stjórnarskrá

Búast má við því að drög stjórnlagaráðs taki einhverjum breytingum.
Búast má við því að drög stjórnlagaráðs taki einhverjum breytingum. mbl.is/Golli

Drög stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá eru nokkuð ólík núgildandi stjórnlögum, ekki síst ef litið er til uppbyggingar, og þau hljóta að teljast róttæk. Drögin voru gerð aðgengileg á vefsíðu stjórnlagaráðs í gær.

Þau eru afrakstur vinnu ráðsins frá því það hóf störf 6. apríl síðastliðinn. Framundan eru umræður um breytingartillögur á ráðsfundum um drögin og má gera ráð fyrir að frumvarpið taki nokkrum breytingum við þær. Stefnt er að því að skila verkinu til forseta Alþingis 29. júlí.

Nýstárleg mannréttindi

Margvísleg nýmæli er að finna í nýju drögunum. Í stuttum fyrsta kafla þeirra er fjallað um undirstöður stjórnskipunarinnar; handhafa ríkisvalds, yfirráðasvæði og ríkisborgararétt. Annar kafli er helgaður mannréttindum og í honum kennir ýmissa grasa. Þar er meðal annars að finna kunnugleg ákvæði um friðhelgi einkalífs, eignarrétt og tjáningarfrelsi.

Önnur ákvæði hafa framandi og óljósan blæ. Í fjórðu grein draganna er kveðið á um rétt allra til að lifa með reisn og að „margbreytileiki mannlífsins“ skuli virtur. Ákvæði um mannlega reisn á sér meðal annars fyrirmynd í Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna en ákvæði hennar felur hins vegar aðeins í sér markmið en ekki bein réttindi. Ekki er kveðið nánar á um í frumvarpinu hvað í þessum rétti felst en hugsanlega verður það gert í greinargerð sem fylgja mun lokaútgáfu þess.

Í elleftu grein um skoðana- og tjáningarfrelsi er nú m.a. kveðið á um að tryggja skuli „óheftan aðgang að netinu og upplýsingatækni“. Í fjórtándu grein er jafnframt kveðið á um vísinda-, fræða- og listafrelsi.

Forseti fær jafnframt aukið vægi í frumvarpinu. Hann mun geta hafnað skipan í embætti ríkissaksóknara og dómara og borið hana undir Alþingi sem samþykkja þarf skipanina með 2/3 atkvæða.

Hann mun einnig, ásamt þriðjungi þingmanna og þingnefndum, geta beint svonefndri lögspurningu til Hæstaréttar til að úrskurða hvort lög, stjórnarathafnir eða athafnaleysi stjórnvalda samrýmist stjórnarskrá. Forseti mun jafnframt aðeins geta setið þrjú kjörtímabil.

Ný Lögrétta sett á laggir

Í drögunum er ennfremur kveðið á um nýja nefnd sem nefnast mun Lögrétta. Í hana kýs Alþingi fimm menn til fimm ára. Þingnefnd eða fimmtungur alþingismanna mun geta óskað eftir áliti Lögréttu um hvort frumvarp til laga samrýmist stjórnarskrá og þjóðréttarlegum skuldbindingum ríkisins. Ekki má afgreiða frumvarpið fyrr en álit Lögréttu liggur fyrir.

Í frumvarpinu er kveðið á um málskot til þjóðarinnar. Í 63. grein segir að þriðjungur þingmanna geti ákveðið innan þriggja daga frá samþykkt lagafrumvarps að vísa því til þjóðarinnar. Fimmtán af hundraði kjósenda geta jafnframt krafist þjóðaratkvæðis, tveir af hundraði kjósenda geta lagt fram þingmál á Alþingi og fimmtán af hundraði kjósenda geta lagt frumvarp til laga fyrir Alþingi.

Í 111. grein draganna er að finna grein um stjórnarskrárbreytingar. Þar segir að hafi fimm sjöttu hlutar þingmanna samþykkt breytingafrumvarp geti Alþingi ákveðið að fella þjóðaratkvæðagreiðslu um breytinguna niður og frumvarpið öðlist gildi engu að síður. Þetta vekur athygli enda mætti ímynda sér að mjög umfangsmiklar breytingar á stjórnarskrá gætu átt stuðning meirihluta þingmanna, ekki síst ef breytingarnar snéru að störfum þeirra sjálfra. Orðalag í drögunum vekur einnig athygli og lítið samræmi virðist vera milli ákvæða. Fimmta og ellefta grein eru orðaðar í fyrstu persónu fleirtölu: „Öll erum við jöfn fyrir lögum [...]“ og „öll erum við frjáls skoðana okkar [...]“. Í öðrum greinum er persónufornafni hins vegar sleppt; í sjöundu grein er t.d. „öllum“ tryggð mannhelgi en ekki „okkur öllum“.

Ráðgefandi stjórnlaganefnd

Salvör Nordal, formaður stjórnlagaráðs, segir að frestur meðlima ráðsins til að skila breytingartillögum renni út á hádegi í dag.

Hún segir jafnframt að í ýmsum ákvæðum í drögunum sé hnykkt á atriðum sem fólki finnist brýnt að komi fram.

Aðspurð segir Salvör að Lögrétta og möguleikinn til að beina lögspurningu til Hæstaréttar sé byggður á tillögum stjórnarskrárnefndar. „Það er þessi hugmynd um að hafa ráðgefandi stjórnlaganefnd. Álit hennar verður ekki bindandi en afgreiðsla lagafrumvarps frestast þar til hún hefur skilað áliti sínu. Þetta helst í hendur við lögspurningu sem þingnefnd eða fimmtungur þingmanna getur beint til Hæstaréttar um hvort lög eða stjórnarathafnir standast stjórnarskrá. Þetta er byggt á tillögum stjórnlaganefndar.“

Í drögunum er gert ráð fyrir að Alþingi geti breytt stjórnarskrá án þjóðaratkvæðagreiðslu með 5/6 atkvæða. Að sögn Salvarar er hugsunin sú að „smávægilegar“ breytingar á stjórnarskrá verði mögulegar án þjóðaratkvæðagreiðslu.

Ný stjórnarskrá
» Stjórnlagaráð hóf vinnu sína 6. apríl síðastliðinn og nýju drögin eru afrakstur vinnu þess. Á næstu dögum fara fram tvær umræður um breytingartillögur og stefnt er að því að skila til Alþingis nýju stjórnlagafrumvarpi hinn 29. júlí næstkomandi.
» Í nýju drögunum er að finna ýmsar breytingar frá núgildandi stjórnarskrá. Forseti fær stærra hlutverk auk þess sem mannréttindakaflinn er lengdur og gerður ítarlegri.
» Drögin bera þess þó merki að vera ókláruð og ósamræmi í orðalagi ákvæða stingur nokkuð í augu.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert