Hlaut brons á ÓL í efnafræði

Ragnheiður Guðbrandsdóttir bronsverðlaunahafi í efnafræði.
Ragnheiður Guðbrandsdóttir bronsverðlaunahafi í efnafræði. mbl.is

Ragnheiður Guðbrandsdóttir, nemandi í Menntaskólanum við Hamrahlíð, fékk bronsverðlaun í efnafræði á 43. alþjóðlegu Ólympíuleikunum í efnafræði sem haldnir voru í Ankara í Tyrklandi 9.-18. júlí.

Aðrir nemendur í liði Íslands í efnafræði voru Anna Bergljót Gunnarsdóttir, Menntaskólanum við Hamrahlíð  og Árni Björn Höskuldsson og Ríkey Eiríksdóttir bæði frá  Menntaskólanum í Reykjavík.

Eftir tveggja vikna þjálfun í júní og júlí hélt liðið til Tyrklands þar sem það mætti 266 nemendum frá 70 löndum. 

Kínverjar voru ótvíræðir sigurvegarar keppninnar með fern gullverðlaun og 94,5 stig að meðaltaki, næst var það lið Suður-Kóreu með fjögur gull og í þriðja sæti var rússneska liðið með þrjú gull og eitt silfur. 

Finnar stóðu sig best norðurlandaþjóða með eitt silfur og þrjú brons, Svíar fengu eitt silfur og tvö  brons en Norðmenn, Danir og Íslendingar fengu eitt brons hvor þjóð.

Menntamálaráðuneytið veitti styrk fyrir ferðinni til Tyrklands en skólar keppenda auk Tandurs hf. og Málningar hf. veittu einnig fjárstuðning til keppninnar.

mbl.is