Enginn Íslendingur særðist

Enginn Íslendingur var í hópi þeirra sem létu lífið á götu úti eða slösuðust á götu úti í sprengjuárásinni í Osló í dag, að sögn Gunnars Pálssonar, sendiherra Íslands í Noregi, þegar rætt var við hann um kl. 19.00 í kvöld.

Gunnar taldi fremur óllíklegt að Íslendingar hafi verið í byggingunum sem urðu verst úti í stjórnarráðshverfinu. Þar eru ráðuneyti og skrifstofur Verkamannaflokksins. Hann sagði að íslenska sendiráðið sé í reglulegu sambandi við talsmann stjórnvalda og hann muni láta vita ef annað kemur í ljós.  

Gunnar benti á að norska lögreglan og sérsveitir hennar séu enn að kanna svæðið þar sem rúður sprungu, en það er töluvert stórt. Byggingarnar hafa verið rýmdar af fólki og fólk hvatt til þess að rýma miðborgina. 

Leitað er hús úr húsi og hæð fyrir hæð til að ganga úr skugga um hvort fórnarlömb leynast í byggingunum.

Gunnar sagði að þetta sé mjög óvenjulegur viðburður og Norðmenn hafi ekki átt að venjast hryðjuverkaárásum, eins og flest bendir til að orðið hafi í dag. Þar til viðbótar er skotárásin á Utøya. Norsk stjórnvöld hafa ekki staðfest að um hryðjuverkaárás hafi verið að ræða.

mbl.is

Bloggað um fréttina