Neyðarhnappar óvirkir um helgina

Heimilissíminn hjá ömmu hennar Klöru er bilaður og þar með …
Heimilissíminn hjá ömmu hennar Klöru er bilaður og þar með er neyðarhnappurinn líka bilaður. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Vegna bilunar á símakerfi Vodafone eru neyðarhnappar, sem margir eldri borgarar treysta á, óvirkir. Klara Harðardóttir segir að frændi sinn sem kvartað hafi hafi undan þessu hafi fengið þau svör að enginn tæknimaður væri við störf um helgar og bilunin verði löguð eftir helgina.

Klara segir að amma sín sé orðin 84 ára gömul og búi ein á Akranesi. Hún hafi verið í viðskiptum við Vodafone símafyrirtækið og gangi með neyðarhnapp sem er tengdur í gegnum þjónustuna hjá því. Í gærkvöldi hafi hún áttað sig á að eitthvað var að heimasímanum, en reiknaði með að hún hefði sett hann vitlaust í hleðslustöðina og fór að sofa.

„Í morgun sá hún að þetta var enn í ólagi og hringdi úr farsíma í frænda minn sem kom og reyndi að sjá hvað væri að. Hann hringdi í þjónustuver Vodafone og sagði frá því að heimasíminn hjá ömmu væri óvirkur og fékk þær upplýsingar að þar af leiðandi væri neyðarhnappurinn óvirkur líka.


Hann bað um að það yrði farið í að gera við þetta þar sem að hún býr ein og maður veit náttúrulega aldrei hvað gæti gerst. Honum var þá tilkynnt að það væru engir tæknimenn sem ynnu um helgar og að hann væri fjórði maðurinn sem tilkynnti um þetta í dag. Það var sama hvað hann reyndi að útskýra fyrir þeim, að það að skilja rúmlega áttræða konu eftir eina án þess að hafa neyðarhnappinn, geti haft alvarlegar afleiðingar í för með sér en það var bara ekki hlustað á hann,“ segir Klara.

Klara segir að það sé ekki allt fólk með farsíma eins og amma hennar. Neyðarhnappurinn sé það tæki sem hún og fleiri treysti á.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert