Kertafleyting á morgun

Frá kertafleytingu á Reykjavíkurtjörn.
Frá kertafleytingu á Reykjavíkurtjörn. mbl.is/Ómar

Kertum verður fleytt á Reykjavíkurtjörn annað kvöld í 27. skiptið. Frá árinu 1985 hafa íslenskir friðarsinnar fleytt kertum í minningu fórnarlamba kjarnorkuárásanna á japönsku borgirnar Hírósíma og Nagasakí  6. og 9.ágúst 1945 og til að leggja áherslu á kröfu sína um friðsaman heim án kjarnorkuvopna.

Þessi hefð er upprunnin í Japan, en kertafleytingar af þessu tagi fara fram víða um lönd í ágúst ár hvert.

Safnast verður saman við suðvesturbakka Tjarnarinnar (við Skothúsveg) klukkan 22:30 og áður en kertunum verður fleytt flytur borgarstjórinn í Reykjavík, Jón Gnarr, ávarp og friðarkveðjur frá borgarstjórunum í Hírósíma og Nagasakí í Japan, þeim Tomihisa Taue og Matsui Kazumi  

Borgarstjórinn hefur gerst aðili að friðarhreyfingu bæjarstjóra (Mayors for Peace) og bættist Reykjavík þannig í hóp tæplega 5000 borga og bæja í yfir 150 löndum um allan heim þar sem ráðamenn lýsa sig reiðubúna til að vinna að friðsamari heimi án kjarnorkuvopna. Fimmtudaginn 11.ágúst verður síðan kertafleyting á Akureyri, við tjörnina við Minjasafnið. Þar verður einnig safnast saman klukkan 22:30.

Kertafleytingin í Reykjavík er á vegum Samstarfshóps friðarhreyfinga, sem er samstarfsverkefni sjö friðarsamtaka og hópa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert