„Svona aðgerð hefur aldrei verið gerð áður“

Guðmundur bíður eftir að franski skurðlæknirinn Lionel Badet upplýsi hann …
Guðmundur bíður eftir að franski skurðlæknirinn Lionel Badet upplýsi hann um hvort 30 manna skurðlæknateymi hans muni græða á hann hendur, en það yrði þá fyrsta aðgerð sinnar tegundar í heiminum. mbl.is

Guðmundur Felix Grétarsson missti báða handleggi rétt fyrir neðan axlir í vinnuslysi árið 1998. Hann var uppi í háspennumastri þegar hann fékk 11 þúsund volta straum með þeim afleiðingum að hann féll 8 metra og braut flest bein í líkamanum. Vegna brunasára varð að fjarlægja handleggina.

Guðmundur bíður eftir að franski skurðlæknirinn Lionel Badet upplýsi hann um hvort 30 manna skurðlæknateymi hans muni græða á hann hendur, en það yrði þá fyrsta aðgerð sinnar tegundar í heiminum. „Ég setti mig í samband við hann árið 2007, hafði séð hann í Kastljósinu á Íslandi, og hef verið í skoðun síðan,“ segir Guðmundur. „Þeir hafa skoðað ástandið á taugum og beinum og það lítur allt vel út,“ segir Guðmundur. Guðmundur hefur unnið síðustu fjögur ár að því að komast í þessa aðgerð. Hann hefur farið tvisvar til Frakklands og gengist undir ýmiss konar próf. Allar niðurstöður hafa verið jákvæðar en Guðmundur mun fá endanlegt svar 9. september næstkomandi. Verði aðgerðin samþykkt mun biðtími taka við sem getur varað frá nokkrum dögum upp í tvö ár eða þangað til að handleggir fást til ágræðslunnar.

Ríkið tryggir ekki handaágræðsluaðgerðir

Guðmundur fær enga aðstoð hjá íslenska ríkinu þar sem aðgerðin flokkast undir „tilraunaaðgerð“ en hún kostar í kringum 21 milljón. Svölurnar, félag fyrrverandi og starfandi flugfreyja, hafa styrkt góð málefni undanfarin ár. Svölurnar hafa nú þegar styrkt Guðmund um fimm hundruð þúsund krónur.

Leggja þær áherslu á að styrkja þá einstaklinga sem njóta ekki opinberra styrkja hjá Tryggingastofnun. Svölurnar stefna að því að halda ótrauðar áfram. Hægt er að veita framlög til styrktarsjóðsins á vefsíðunni svolurnar.is

Guðmundur Felix mun hlaupa fyrir „Handahlaup“ í Reykjavíkurmaraþoni 20. ágúst næstkomandi. Stofnuð hefur verið Facebook-síða undir nafninu Handahlaup þar sem góður hópur fólks leggur sín lóð á vogarskálarnar til að aðstoða Guðmund við að fá handleggi grædda á sig. Hægt er að styrkja Guðmund með því að hringja í 901 5100, 901 5200 og 901 5500. Unnið er að því að styðja Guðmund þar sem hann hefur þurft að mæta ýmiss konar kostnaði vegna slyssins.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert