Fréttaskýring: Aukin harka í kjaradeilu

Allt stefnir í verkfall leikskólakennarar á mánudag
Allt stefnir í verkfall leikskólakennarar á mánudag mbl.is/Árni Sæberg

„Það er verið að etja okkur saman við leikskólakennara, það er bara þannig. Ég hélt ekki að sveitarfélögin myndu leggjast svona lágt og mér er gróflega misboðið,“ segir Sóley Valdimarsdóttir, leikskólastjóri á Dalborg á Eskifirði.

Aukin harka er hlaupin í kjaradeilur Félags leikskólakennara og Sambands íslenskra sveitarfélaga og nú hefur leikskólastjórum verið stillt upp í pattstöðunni miðri. Deilt er um framkvæmd yfirvofandi verkfalls, en lögfræðingar Kennarasambands Íslands og Sambands íslenskra sveitarfélaga eru á öndverðum meiði í túlkun sinni.

KÍ hefur sett þá viðmiðunarreglu að loka verði deildum, ef deildarstjórinn er í Félagi leikskólakennara. Samband íslenskra sveitarfélaga telur hinsvegar að halda beri starfseminni áfram, með því starfsfólki sem ekki er í verkfalli. Þar er fyrst og fremst um að ræða ófaglært starfsfólk, sem stendur utan Félags leikskólakennara.

Í bréfi sem Sambandið sendi til sveitarfélaga og leikskólastjóra í gær segir að leikskólastjóri hafi óskorað vald til að flytja undirmenn sína milli deilda og gera aðrar ráðstafanir til að leikskólastarfið truflist sem minnst. Ljóst er að verði þessi túlkun ofan á verður talsvert minni röskun af verkfallinu en ella, því faglærðir leikskólakennarar eru í minnihluta starfsfólks.

Ákvörðunin sveitarfélaganna

Ingibjörg Kristleifsdóttir, formaður Félags stjórnenda leikskóla, segir hinsvegar að með bréfinu sé verið að hvetja leikskólastjóra til verkfallsbrots.

„Leikskólastjórar munu sinna sínum starfsskyldum af heilindum hér eftir sem hingað til, en þeir eiga að okkar mati hvorki að ganga í störf leikskólakennara né fá aðra til þess, og þar með eru talin störf deildarstjóra.“

Inga Rún Ólafsdóttir, formaður samninganefndar sveitarfélaganna, segir að á endanum sé það ákvörðun hvers sveitarfélags fyrir sig hvernig starfsemi verður háttað í verkfalli.

„Sveitarfélögin reka leikskólana og væntanlega munu þau gefa út tilkynningar til foreldra.“ Aðspurð hvort látið verði reyna á ágreininginn þegar verkfall hefst 22. ágúst segir Inga að það sé til skoðunar. „Það eru nokkrir dagar í verkfall og mjög mörg álitamál sem fara þarf yfir. Okkar afstaða er alveg skýr, en hvað við gerum með það eigum við eftir að setja nákvæmlega niður.“

Skilaboðin sem leikskólastjórnendur fá um framkvæmd verkfallsins eru því mjög misvísandi en heyra mátti á þeim leikskólastjórum sem Morgunblaðið ræddi við í gær að þeim fannst þeim stillt upp við vegg. „Ég verð að hlýða mínum yfirmönnum, en ég stend líka með minni stétt,“ segir Alda Agnes Sveinsdóttir, leikskólastjóri á Stekkjarási í Hafnarfirði, einum af stærstu leikskólum landsins.

Verkföll verða að vera beitt

Alda segir að foreldrar spyrji mikið um á hverju sé von, til þess að geta gert ráðstafanir, en fátt sé um svör á meðan staðan sé svo óljós.

„Við viljum auðvitað halda áfram því starfi sem við erum búin að skipuleggja. En það er þetta með verkföll, þau þurfa að vera beitt til þess að hafa áhrif. Okkur þykir leitt að þetta komi niður á börnunum, en það er einhugur um að kennararnir eigi rétt á þessari leiðréttingu og þeir ætla sér að ná því fram.“

Sóley Valdimarsdóttir á Dalborg segir einnig að leikskólastjórar verði að hlíta því ef sveitarfélögin ákveði að leikskólinn skuli vera opinn, en hún sé ekki sátt við að vera sett í þessa stöðu. „Við vorum eitt félag þar til fyrir stuttu, en þó að við séum orðin tvö félög núna erum við ein rödd og við stöndum algjörlega með okkar fólki.“

Vinnustaðir gera ráðstafanir

Hvernig sem fer er ljóst að fari leikskólakennarar í verkfall verða áhrif þess víðfeðm í samfélaginu. Um 19.000 börn eru í leikskólum landsins og að baki þeirra standa þúsundir foreldra sem þurfa að sækja vinnu. Vinnuveitendur fylgjast því grannt með þróun mála og sumstaðar verður gripið til ráðstafana vegna starfsmanna sem eiga lítil börn. Þau svör bárust frá nokkrum fyrirtækjum að ekki kæmi til umræðu að bjóða upp á barnapössun, enda fælist í því mögulegt verkfallsbrot. Flestir vinnuveitendur segjast hinsvegar munu sýna sveigjanleika og sýna fjarveru foreldra skilning. Sumstaðar kemur til greina að börnin fylgi með í vinnuna, annars staðar að foreldrar vinni að heiman ef hægt er.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »