Sváfu á flugstöðvargólfi

Flugvél Iceland Express. Mynd úr myndasafni.
Flugvél Iceland Express. Mynd úr myndasafni. mbl.is/Þorgeir Baldursson

Um 70 farþegar á vegum Iceland Express gistu  í nótt á flugvellinum í Alicante á Spáni. Þeir fengu hvorki vott né þurrt, fyrr en klukkan fimm í morgun og fengu hvorki teppi né kodda, heldur þurftu að búa um sig á gólfinu. Þeir hafa engar upplýsingar fengið frá félaginu, en fluginu var seinkað vegna öryggisástæðna.

„Það eina sem okkur var sagt á flugvellinum var að það yrði hugsanlega flug klukkan sex eða átta í kvöld,“ segir Jóhanna Stefánsdóttir, einn farþeganna, en hún var í útskriftarferð Menntaskólans á Ísafirði ásamt 60 öðrum. „Við reyndum að hafa samband við Iceland Express, en enginn svaraði. Þá hringdum við í Keflavíkurflugvöll, en þar var lítið um svör.“

Að sögn Jóhönnu voru um 220 manns, sem áttu bókað far með vélinni. Þau fengu að vita af seinkuninni, þegar þau áttu að fara um borð. Fólk með börn fékk forgang á hótel.

Um klukkan níu í morgun að spænskum tíma fór afgangurinn af hópnum á hótel, eftir heldur svefnlausa nótt á gólfi flugvallarins. Þeim var ennfremur boðin hressing um fimmleytið í morgun.

„Við erum mjög ósátt, þetta er ekki fólki bjóðandi,“ segir Jóhanna og segir að fólki svíði einna helst að ekkert samband hafi verið haft frá Iceland Express.

Frétt mbl.is um frestun á fluginu
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert