Áfengi framleitt úr íslensku birki

Sprotafyrirtækið Foss Distillery hefur byrjað framleiðslu á tveimur áfengistegundum, sem unnar eru úr íslensku birki.

Fram kemur í tilkynningu, að Björk birkilíkjör og Birkir birkisnafs séu afrakstur tilraunastarfsemi Ólafs Arnar Ólafssonar, formanns Vínþjónasamtaka Íslands, og Gunnars Karls Gíslasonar, fyrirliða íslenska kokkalandsliðsins. 

Þróunarverkefnið Björk og Birkir hefur hlotið hvatningarverðlaun á frumkvöðlanámskeiði Hugmyndahúss Háskólanna og styrk frá Íslandsstofu fyrir hönnun til útflutnings. Ásamt Ólafi og Gunnari Karli standa að verkefninu Jakob Svanur Bjarnason mjólkurfræðingur og Elsa María Jakobsdóttir félagsfræðingur.

Markmið Foss Distillery er að þróa og framleiða líkjöra og snafsa úr íslensku hráefni. Catco vín í Borgarnesi, sem meðal annars sér um framleiðslu á Reyka-vodka, hefur hýst verkefnið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert