Forsetinn gekk gegn hagsmunaöflum

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, ræðir Icesave-deiluna á blaðamannafundi á …
Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, ræðir Icesave-deiluna á blaðamannafundi á Bessastöðum fyrr á árinu. mbl.is/Árni Sæberg

„Fyrir mér var það augljóst að lýðræðið yrði að hafa betur jafnvel þótt allar ríkisstjórnir Evrópu og öflugir hagsmunahópar í mínu landi stæðu með þeim sem ættu fjárhagslegra hagsmuna að gæta,“ sagði Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, í setningarræðu á alþjóðlegri ráðstefnu stjórnmálafræðinga í Reykjavík í dag, um þá ákvörðun að vísa Icesave-deilunni í dóm þjóðarinnar. 

Ítrekaði forsetinn í ræðu sinni þá skoðun sína að lýðræðið og peningaöflin takist nú á. Í þeirri glímu hljóti hann að standa með lýðræðinu.

Ólafur Ragnar vék að hinum miklu umskiptum sem hefðu orðið í viðhorfum til hlutverks ríkisvaldsins vegna fjármálakreppunnar undanfarin misseri. Benti forsetinn jafnframt á að nýir samskiptamiðlar hefðu gjörbreytt stöðu almennings gegn valdastofnunum. Netið hefði gegnt mikilvægu hlutverki í búsáhaldabyltingunni og mótmælum almennings í Aþenu og Kaíró síðustu mánuði.

Í öllum þessum hræringum hefði stjórnmálafræðin mikilvægu hlutverki að gegna en sem kunnugt er var Ólafur Ragnar prófessor í þeirri grein við Háskóla Íslands. Fésbókin hefði verið notuð til að koma fundarboðum áleiðis í tunnumælunum fyrir utan Alþingishúsið síðasta vetur.

Sjálfsprottin og með litlum fyrirvara

Mótmæli sem áður hefði tekið vikur og mánuði að skipuleggja væru nú undirbúin með litlum fyrirvara fyrir tilstilli netsins og nýrra samskiptamiðla.

Þessi umskipti hefðu komið í ljós þegar nokkrir Íslendingar, án tengsla við stjórnmálasamtök, söfnuðu undirskriftum fjórðungs þjóðarinnar þar sem skorað var á þjóðhöfðingjann að synja Icesave-lögunum staðfestingar.

„Þetta var vald fólksins í sinni tærustu mynd. Það skoraði aðgerðir stjórnvalda og þingsins á hólm og hvatti forsetann til að rækja skyldur sínar samkvæmt stjórnarskránni í þágu hins lýðræðislega vilja fólksins,“ sagði Ólafur Ragnar.

Mikil lýðræðisleg umskipti

Forsetinn setti samskiptabyltinguna einnig í sögulegt samhengi og lýsti því hvernig hann hefði hlýtt á gagnmerkar umræður á ráðstefnu um tölvumál í Þýskalandi nýverið.

Þar hefði komið í ljós að þær breytingar sem nýir samskiptamiðlar muni leiða til séu sambærilegar við þau umskipti er lénsskipulag og konungsveldi véku fyrir lýðræðislegu skipulagi og kosningum.

Mótmælin á Íslandi, arabíska vorið og jafnvel grasrótarstarf stuðningsmanna Baracks Obama forseta væru til vitnis um þær miklu pólitísku jarðhræringar sem samskiptabyltingunni fylgi. 

Umrót síðustu missera á Íslandi í kjölfar efnahagshrunsins geti veitt dýrmætt innsæi í þá samfélagslegu umbreytingu sem fari nú sem eldur um sinu um hinn vestræna heim.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert