Hækki fjármagnstekjuskatt

Þorleifur Gunnlaugsson.
Þorleifur Gunnlaugsson.

Hækka ber fjármagnstekjuskatt úr 20% í 30% sem og aðra skatta á þá tekjuhæstu, að mati Þorleifs Gunnlaugssonar, varaborgarfulltrúa Vinstri grænna í Reykjavík, sem telur að með hærri sköttum megi stuðla að meiri jöfnuði í þjóðfélaginu.

Þorleigur lagði ásamt Einar Ólafssyni, Guðmundi Magnússyni, Jóni Torfasyni og Sigríði Kristinsdóttur fram ályktun á flokksráðsfundi VG um helgina þar sem sagði að fremur bæri að hækka skatta en að skera niður í velferðinni.

Að sögn Þorleifs var ályktunin samþykkt. Hann svarar gagnrýni að ekki bæri að hækka skatta meira svo:

Skortir mat og húsaskjól

„Ég svara þessu nú þannig að þegar staðan er orðin þannig að fjöldi fólks á ekki í sig og á og þak yfir höfuðið þá þurfum við að stíga skref sem leiða til meiri jöfnuðar í samfélaginu. Eina leiðin er að skattaleggja þá sem eiga meira en aðrir til að standa undir velferðinni. Ég sé enga aðra leið.“

Stjórn VG ályktar að ríkisstjórnin hafi náð ótvíræðum árangri í skattamálum. Hvar þá helst?

„Skattar hafa fyrst og fremst verið hækkaðir á þá sem eiga mikið. Fjármagnstekjuskattur er þó alls ekki nógu hár. Ég vil hækka hann um 10% í viðbót og hafa hann 30% eins og í Svþjóð. Svo er það auðlegðarskatturinn. Við þurfum að stuðla að meiri jöfnuði. Hann er að mínu mati ekki nógu mikill í íslensku samfélagi í dag.

Við þurfum að getað fjármagnað velferðina á erfiðum tímum. Þeim er alltaf að fjölga sem eiga ekki fyrir mat síðustu dagana fyrir mánaðamót. Ég hef undanfarið rætt við fólk sem er heimilislaust. Það fær ekki lán fyrir útborgun á leigu. Það er krafið um tvo mánuði fyrirfram og einn mánuð í tryggingu af leigusölum. Þetta fólk á ekki slíkt fé tiltækt.  

Þegar það þrengir að verðum við að axla byrðarnar saman. Það er eitthvað af fólki sem á mjög mikið af peningum.“

Þorleifur bendir jafnframt á að húsaleigubætur hafi ekki hækkað síðan í maí 2008, á sama tíma og húsaleiga hjá Félagsbústöðum Reykjavíkur hafi hækkað um 29%, skv. vístölu verðtrygginga.

„Það segir mér að húsnæðiskostnaður fólks sem leigir hjá af félagsbústöðum hefur hækkað verulega. Þetta er fátækasta fólkið í samfélaginu. Það er á lægstu laununum eða þiggur atvinnuleysisbætur eða fjárhagsaðstoð sveitarfélaga,“ segir Þorleifur.

mbl.is