Einhugur í VG um úrsögn úr NATO

Merki NATO
Merki NATO

Enginn ágreiningur er innan þingflokks Vinstri grænna um að Ísland beri að segja sig úr Atlantshafsbandalaginu. Þetta segir Einar Ólafsson, skáld og rithöfundur, en hann lagði fram ályktun á flokksráðsfundi VG þar sem loftárásir NATO í Líbíu voru fordæmdar.

Einar var ásamt Elínu Sigurðardóttur og Jóni Torfasyni höfundur að ályktunardrögum á flokksráðsfundi VG á Hótel Loftleiðum síðustu helgi þar sem loftárásir NATO í Líbíu voru fordæmdar. Var ályktunin samþykkt á fundinum sem og ýtarlegri ályktun um að rannsaka bæri aðdragandann að stuðningi ríkisstjórnarinnar við árásirnar.

Einar segir grasrótina hafa brugðist hart við þeirri ákvörðun stjórnvalda að styðja aðgerðirnar.

„Það urðu strax talsverð viðbrögð á meðal flokksmanna vegna hernaðarins. Ég held ég geti sagt með fullvissu að viðbrögðin hafi almennt verið hörð á meðal þeirra flokksmanna sem láta sig utanríkismál varða.

Þetta snýst um grundvallarmál og sýn flokksmanna á NATO. Bandalagið er ekki aðeins að fara inn í Líbíu til að bjarga fólki frá Gaddafi. Þarna eru að baki olíuhagsmunir og aðrir hagsmunir.“

En ber Íslandi að ganga úr NATO?

„Já. Það er almennt litið svo á innan þingflokks VG að NATO hafi þróast mjög til verri vegar. Mig minnir að allir þingmenn VG hafi tekið undir ályktun á flokksþingi í vor um að Ísland eigi að segja sig úr bandalaginu,“ segir Einar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert