Fréttaskýring: Annar játaði árás en mikill munur er á framburði aðila

Davíð Freyr Rúnarsson og Ríkharð Júlíus Ríkharðsson leiddir fyrir héraðsdómara …
Davíð Freyr Rúnarsson og Ríkharð Júlíus Ríkharðsson leiddir fyrir héraðsdómara í gærmorgun.

Merkilegt er hversu dökka mynd gæsluvarðhaldsúrskurðir draga upp af málum. Uppgjör innan vélhjólasamtakanna Black Pistons gefur til kynna að þar séu á ferð harðsvíraðir glæpamenn sem lifa og hrærast í undirheimnunum og svífast einskis til að fá sínu fram. Og víst er lýsingin á umræddu máli slík.

Þegar í dómsal kemur sitja þó bara tveir ungir menn og svara til saka. Dagfarsprúðir á að líta. Og fórnarlambið í málinu, nýskriðið yfir tvítugsaldurinn. Vakna þá spurningar um það hvernig menn koma sér í þessa stöðu.

Ákæruatriðin eru alvarleg. Mjög alvarleg meira að segja. Mennirnir tveir, Ríkharð Júlíus Ríkharðsson, 33 ára, og Davíð Freyr Rúnarsson, 28 ára, eru ákærðir fyrir að hafa haldið ungum karlmanni, fæddum 1989, frá kvöldi þriðjudags 11. maí sl. fram að hádegi daginn eftir. Á þeim tíma eiga þeir báðir að hafa gengið í skrokk á manninum unga, notað til þess vopn á borð við þykkar rafmagnssnúrur, belti, slíðrað skrautsverð og hníf auk þess að kýla og sparka.

Atlagan fór samkvæmt ákæru fram á nokkuð löngum tíma, í skömmtum, því farið var í nokkrar bílferðir yfir nóttina, og var fórnarlambinu haldið í iðnaðnarhúsnæði í Reykjavík um nokkurra klukkustunda skeið.

Framburður tók breytingum

Framburður fórnarlambsins var á þann veg að báðir hefðu mennirnir tekið virkan þátt í árásinni og Ríkharð þó sýnu meiri. Það var þó Davíð sem játaði á sig að hafa ráðist á fórnarlambið og veitt því áverka, þó aðeins með höggum og spörkum. Hafnaði hann því með öllu að fórnarlambið hefði verið svipt frelsi sínu. Ríkharð játaði aðeins að hafa ýtt við fórnarlambinu þannig að það féll við. Af því hefði ekki getað orðið nema mar.

Svo virtist af spurningum saksóknara sem áverkar á líkama fórnarlambsins gætu ekki stafað eingöngu af höggum og spörkum, sér í lagi á baki þess þar sem greina mætti för eftir það sem gæti verið svipa eða rafmagnssnúra. Hvorki Davíð né Ríkharð gátu gefið skýringar á þeim áverkum.

Saksóknari benti á að framburður Davíðs hefði tekið nokkrum breytingum frá yfirheyrslum lögreglu og spurði hvort hann hefði tekið málið á sig, ef svo má segja. Þannig vill til að Ríkharð er svonefndur foringi áðurnefndra vélhjólasamtaka og Davíð meðlimur í sömu samtökum. Var Davíð spurður að því hvort honum hefði verið hótað og neitaði hann því.

Síðar bar saksóknari undir Ríkharð símasamtal sem hann átti í fangelsinu. Í því sagði Ríkharð: „Við eigum eftir að sósa þetta saman. Þetta er Dabbi, hann viðurkennir sitt.“ Hafnaði Ríkharð því alfarið að þar hefði verið átt við að samræma framburð fyrir aðalmeðferðina.

Fyrirgefið illan orðróm

Tilefni árásarinnar á unga manninn var það, að sá hafði „labbað hingað og þangað um bæinn og sagt hluti sem ekki eru sannir til að þykjast vera einhver kall,“ líkt og Davíð lýsti því. Nánar lýst sagði hann fórnarlambið hafa breitt út lygar um að hann seldi vímuefni og stæði í handrukkunum með félögum sínum, þ.e. Davíði og Ríkharði. Sjálfur bar ungi maðurinn að hann hefði „sagt hluti um Davíð sem hann hefði kannski ekki átt að gera“. Hins vegar hefði Davíð fyrirgefið sér það.

Fyrir dómi bar ungi maðurinn að ýmsar kröfur hefðu verið gerðar á meðan á vistinni stóð. Meðal annars að honum bæri að greiða tíu milljónir króna, útvega tölvu, fasteignir og bíla. Þessu neituðu Davíð og Ríkharð staðfastlega.

Davíð áréttaði hins vegar að ágreiningurinn hafi sprottið upp frá óheiðarleika fórnarlambsins. Hugsanlega hafi þó verið of langt gengið.

Hljópst á brott þegar árásarmaður var í hársnyrtingu

Í þeim bílferðum sem farnar voru umrædda nótt var m.a. stoppað á heimili barnsmóður Davíðs Freys Rúnarssonar og Iðnaðarhúsinu í Reykjavík. Bar þeim ekki saman, fórnarlambinu og Davíð, um hvort um frelsissviptingu væri að ræða. Davíð bar við að fórnarlambið hafi beðið úti í bíl á meðan, í klukkustund eða rúma, og hefði komist þaðan ef hann hefði viljað. Auk þess hafi fórnarlambið verið að reka á eftir honum á meðan Davíð ræddi við barnsmóður sína. Fékk þetta stoð í vætti barnsmóðurinnar, en hún sagði að hann hefði komið að íbúðinni og spurt Davíð hvort þeir væru ekki að fara leggja af stað.

Ungi maðurinn sagði hins vegar að aðeins hefðu liðið tíu til fimmtán mínútur. Verjandi Davíðs spurði hann út í þessa stund; hvers vegna hann hafi ekki hlaupið burtu, gefið sig fram í verslun sem var nærri. Skýrði ungi maðurinn þá frá þessu: „Fyrr um kvöldið var Ríkharð búinn að segja að ef ég myndi flýja þá yrði fjölskyldu minni gert mein. Það er ekki hægt að lýsa forgangsröðuninni þegar þú ert í svona aðstöðu.“

Fórnarlambið komst í burtu þegar Davíð ákvað að fara í klippingu í Borgartúni. Þá var fórnarlambið með í för. Sjálfur bar maðurinn við að hafa sest niður, fengið sér vatnsglas, beðið um að fara á klósettið og þá hlaupið beinustu leið að lögreglustöðinni við Hverfisgötu.

Starfsfólk hárgreiðslustofunnar var kallað fyrir dóminn og merkti ekkert þeirra áverka á unga manninum þegar hann var þar. Ekki þótti því hann óttasleginn en starfsstúlka ein bar við að hann hefði sofnað í stól þar, áður en hann hvarf.

Allt skiptir þetta máli þegar kemur að því að ákveða sekt. Nánar verður þó farið yfir málið í ræðu Huldu Maríu Stefánsdóttur saksóknara, Brynjars Níelssonar, verjanda Ríkharðs, og Guðmundar St. Ragnarssonar, verjanda Davíðs, en framhald aðalmeðferðar verður í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert