„Ísland þarf peningana“

Umfjöllunin á vef Shanghaiist.com.
Umfjöllunin á vef Shanghaiist.com.

„Ísland verður að horfast í augu við staðreyndir. Þessi maður á peninga og Ísland þarf á þeim að halda,“ segir í lauslegri þýðingu á vefnum Shanghaiist.com um fyrirhuguð kaup kínverska auðmannsins Huang Nubo á 300 ferkílómetrum lands á Grímsstöðum á Fjöllum.

Landrýmið er sett í samhengi við flatarmál Íslands og bent á að jörðin sé 0,3% af flatarmálinu, sem er rétt um 103.000 ferkílómetrar.

Sérstaklega er tekið fram að Ísland sé heimaland Bjarkar, söngkonunnar sem ekki hafi sýnt Kínverjum tilhlýðilega virðingu með baráttusöng sínum um Tíbet í heimsókn sinni til Kína fyrir nokkrum árum.

Þá segir að íslenskir þingmenn tortryggi kaupin og líti svo á að með þeim séu Kínverjar að fara bakdyramegin að því markmiði sínu að treysta áhrif sín í heimshlutanum.

Vitnað er til ummæla Ögmundar Jónassonar innanríkisráðherra þessu til stuðnings.

Ráðherrann hafi viljað vekja athygli á þeirri staðreynd að kaup af þessu tagi stangist á við lög. Á hinn bóginn sé hægt að sækja um undanþágu frá lögunum sem ráðherrann muni skoða gaumgæfilega þegar hún komi inn á borð hans.

Greinina má nálgast hér

mbl.is