Bólusetning gegn HPV að hefjast

Bólusetning gegn HPV er að hefjast hér á landi.
Bólusetning gegn HPV er að hefjast hér á landi. mbl.is/Ómar Óskarsson

Almenn bólusetning gegn HPV (Human Papilloma Virus) hefst hér á landi seinni hluta septembermánaðar. Í vetur verður stúlkum sem fæddar eru 1998 og 1999 boðin bólusetning og framvegis verða 12 ára stúlkur bólusettar árlega. Bólusett verður með bóluefninu Cervarix sem framleitt er af GSK og felur full bólusetning í sér þrjár sprautur sem gefnar verða á 6-12 mánaða tímabili.

Áætlað er að bólusetja stúlkurnar í skólum landsins en framkvæmd bólusetningarinnar er í höndum heilsugæslunnar. Bréf með upplýsingum um bólusetninguna verður sent til foreldra og forráðamanna 12 og 13 ára stúlkna á næstu dögum.

Á heimasíðu Landlæknisembættisins segir að leghálskrabbamein sé næstalgengasta krabbameinið hjá konum um heim allan. Á Íslandi greinast árlega um 1.700 konur með forstigsbreytingar í leghálsi og 14-17 konur með leghálskrabbamein. Meðalaldur kvenna sem greinast með forstigsbreytingar er um 30 ár en þeirra sem greinast með leghálskrabbamein um 45 ár.

Með bólusetningunni verður komið í veg fyrir flestar HPV-sýkingar sem valdið geta leghálskrabbameini. Talið er að með almennri bólusetningu megi koma í veg fyrir um 70% leghálskrabbameins og stóran hluta alvarlegra forstigsbreytinga.

Þar sem það tekur leghálskrabbamein að meðaltali 20-30 ár að myndast eftir HPV-sýkingu mun líða langur tími þar til árangur bólusetningarinnar kemur í ljós. Því er mikilvægt að konur fylgi áfram þeim tilmælum sem nú eru í gildi um krabbameinsleit.

mbl.is

Bloggað um fréttina