Draumur Stígamóta hefur ræst

Guðrún Jónsdóttir og Steinunn Gyðu- og Guðjónsdóttir.
Guðrún Jónsdóttir og Steinunn Gyðu- og Guðjónsdóttir. mbl.is/Sigurgeir

Í dag var opnað formlega nýtt kvennaathvarf í Reykjavík fyrir konur á leið úr vændi og mansali.  Að sögn Steinunnar Gyðu- og Guðjónsdóttur, verkefnisstýru athvarfsins, hefur draumur Stígamóta til margra ára nú ræst og með athvarfinu verður þjónusta við þessar konur bætt til muna.

„Afleiðingar þess að vera í vændi eru þær sömu og hjá þeim sem hafa verið beittir kynferðisofbeldi nema þær eru ýktari. Það veit enginn hvað eru margar konur og karlar í vændi á Íslandi.  Það er mikil þöggun og miklir fordómar í kringum vændi á Íslandi. Skilningur hér samkvæmt lögum er að vændi er ofbeldi gegn konum og kaupendur eru þeir sem bera ábyrgðina. Athvarfið verður vonandi skref til að minnka fordómana gegn konum sem er í vændi. Þegar sektin er ekki þeirra eiga þær auðveldara með að sækja sér aðstoð,“ sagði Steinunn á blaðamannafundi sem var haldinn í húsnæði Stígamóta fyrir stundu til að kynna starfsemi athvarfsins.

Í athvarfinu fá konur einstaklingsmiðaða þjónustu og geta dvalið þar til langtíma eða eins og þörf krefur. Heimilisfang athvarfsins er leynilegt og öryggi kvennanna verður vel gætt.

„Þær konur sem stunda vændi á Íslandi er fjölbreyttur hópur. Þær eru íslenskar og erlendar, í neyslu og ekki í neyslu og margar eru fjölskyldumanneskjur,“ segir Steinunn. „Það er grassandi markaður fyrir vændi á Íslandi. Nú bjóðum við upp á úrræði fyrir konur sem eru í vændi en þurfa samstöðu miklu fleiri til að koma í veg fyrir eftirspurnina.“
Athvarfið verður mest rekið með vinnu sjálfboðaliða en það hefur tryggt sér fjármagn til að starfa í eitt ár.

Guðrún Jónsdóttir framkvæmdastýra Stígamóta segir að þrátt fyrir mikinn velvilja dugi það ekki til að starfrækja Stígamót eins og vilji er til. Því býður Stígamót fólki frá og með morgundeginum að taka þátt í því að reka Stígamót undir kjörorðunum; Stingum ekki höfðinu í sandinn, stöndum saman og styrkjum Stígamót. Með því bjóða þau fólki að greiða mánaðarlegar greiðslur inn á reikning Stígamóta.

„Við erum að auka þjónustuna við fólk utan höfuðborgarsvæðisins og það kostar heljar peninga. Allstaðar þar sem við höfum verið að bjóða upp á þjónustu á landsbyggðinni komast færri að en vilja og við þurfum aukið fjármagn til að geta boðið upp á þessa þjónustu,“ segir Guðrún.

Upplýsingar um hvar má skrá sig sig til að gefa framlag til Stígamóta má finna inn á vefsíðu Stígamóta, www.stigamot.is.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert