Beygðu sig undir ofbeldi

Ólafur Ragnar Grímsson.
Ólafur Ragnar Grímsson. Reuters

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, segir góðar endurheimtur í þrotabúi Landsbankans staðfesta að íslensk stjórnvöld hafi látið undan þrýstingi og beygt sig undir ofbeldi Breta og Hollendinga í Icesave-málinu. Þetta sagði hann í samtali við fréttastofu RÚV.

Forsetinn sagði að hann hefði alltaf haldið því fram að eignir bankans myndu duga fyrir Icesave-skuldinni. Það væri rannsóknarefni fyrir Evrópusambandið hvernig ríki sambandsins gátu stutt fáránlegar kröfur Breta og Hollendinga.

Ólafur Ragnar sagði að réttast hefði verið að bíða og sjá hvað kæmi út úr eignum Landsbankans, frekar en að fallast á fáránlegar kröfur Breta og Hollendinga um að íslenska þjóðin gengist í ábyrgð fyrir Icesave skuldinni.

„Það var ekki gert heldur var bara látið undan þessum þrýstingi. Menn beygðu sig fyrir þessu ofbeldi af hálfu Evrópuþjóðanna og samþykktu fyrst samning sem var svo óheyrilegur að ekki aðeins hrópaði íslenska þjóðin hann af heldur hlupu Bretar og Hollendingar frá honum strax nokkrum mánuðum eftir að ákveðið var að setja þessa þjóðaratkvæðagreiðslu. Þannig að það sem er að gerast núna er bara einfaldlega sýn á það að ef haldið hefði verið á málinu af skynsemi frá upphafi þá var bara algjör óþarfi að setja íslenska þjóð og samstarf okkar við Evrópuríkin í þessa spennitreyju,“ sagði  forsetinn í samtali við RÚV.

mbl.is