Engin augljós skýring á óróa

„Þessi merki sem nú eru, aukin smáskjálftavirkni og aukin jarðhitavirkni og einhverjar vísbendingar um útþenslu á eldstöðinni eru dæmigerð merki um að Katla sé að búa sig undir eldgos,“ segir Magnús Tumi Guðmundsson jarðvísindamaður sem var að koma úr eftirlitsflugi yfir Mýrdalsjökul. Hann tekur fram að Katla hafi gert slíkt áður, án þess að það leiddi til goss. Hins vegar verði að gera ráð fyrir að þetta endi með eldgosi þó ekki sé hægt að segja til um hvenær það verði.

Um mögulegan fyrirboða eldgoss segir Magnús að vitað sé að öll Kötlugos sem heimildir eru um  frá því um 1500 hafi komið í kjölfar jarðskjálfta í Mýrdal. „Það er sá forboði sem við treystum á sem er skammtímaforboði.“  Nokkuð vel sé vitað hvernig síðustu klukkutímarnir og aðdragandi eldgosa séu  í Heklu, Grímsvötnum og Kröflu. Ekki séu til neinar slíkar mælingar til að styðjast við varðandi Kötlu. Virknin í Mýrdalsjökli núna sé þó langtímaforboði sem þurfi alls ekki að enda með gosi.

Sáu aftur ketil sem hefur ekki sést í nokkur ár
Magnús segir að nokkuð þungbúið hafi verið vestamegin og því hafi norðvesturhluti Kötluöskjunnar ekki sést. Ágætt skyggni hafi hins vegar náðst yfir austur og suðausturhlutann en þar séu þeir katlar sem hlaupið hafi úr í sumar. Þeir séu að mestu óbreyttir.

Hins vegar hafi sést ketill sem ekki hafi verið sjáanlegur í sjö til átta ár. Hann hafi stækkað verulega, komnar séu í hann sprungur og vatn hafi runnið í hann á síðustu vikum. Það sé mjög greinilegt merki um að jarðhiti sé að aukast, á sama tíma og jarðskjálftavirkni sé að aukast. Magnús segir erfitt að fullyrða nokkuð um hvort vatn sé að renna undan annars staðar. Það séu einfaldlega ekki tök á að mæla allt í jöklinum og því  ávallt ákveðin óvissa um hvað sé að gerast þar undir. Ekki hafi sést nein augljós skýring á þeim óróa sem var í dag.

Það er algengara að þróun á við þá sem hefur átt sér stað núna endi áður en til goss kemur að sögn Magnúsar sem  vísar til virkni í Kötlu á árunum 2001-2004. Einnig hafi verið aukin útþensla og skjálftavirkni í Eyjafjallajökli 1994-1999 sem síðan stoppaði áður en kom til goss.

mbl.is

Bloggað um fréttina