Reyni að ná viðskiptum annarra

Lögmannafélag Íslands (LMFÍ) hefur til skoðunar kvartanir sem beinast að því að starfsmaður lögmannsstofu reyni að ná til sín viðskiptavinum annarra lögmannsstofa. Stöð 2 greindi frá þessu í kvöld. Verið sé að athuga hvort um brot á siðareglum lögmanna sé að ræða.

Í fréttinni kemur fram að fulltrúi á lögmannsstofu Guðmundar Ragnarssonar héraðsdómslögmanns, Versus lögmönnum, hafi reynt að fá viðskiptavini annarra lögmanna í viðskipti við Guðmund.

Um sé að ræða Atla Helgason, sem missti lögmannsréttindi sín þegar hann var dæmdur fyrir manndráp árið 2001. Telja lögmenn sem kvartað hafa, að Atli reyni að nýta sér þau sambönd sem hann hafi aflað sér meðal fanga þegar hann tók út refsingu á Litla Hrauni til að ná í viðskiptavini fyrir stofuna og brjóti þar með gegn siðareglum lögmanna.

Framkvæmdastjóri LMFÍ, Ingimar Ingason, staðfesti við Stöð2 að verið væri að skoða mál Atla. Þar sem úrskurðarnefnd lögmanna hafi ekki lögsögu yfir Atla eftir að hann missti lögmannsréttindin sé til skoðunar hvort Guðmundur beri ábyrgð á hinum meintu brotum á siðareglum.

Guðmundur sagðist í samtali við Stöð2 ekki hafa heyrt af kvörtuninni og vísaði kvörtunum út af Atla og sér á bug. Sagðist hann undrast þær athugasemdir sem hefðu verið gerðar við LMFÍ og að enginn skipti um lögmann nema hann vildi það sjálfur.

mbl.is

Bloggað um fréttina