Óvænt stefna í Black Pistons-máli

Brynjar Níelsson, verjandi annars ákærðu.
Brynjar Níelsson, verjandi annars ákærðu.

Ekkert varð úr fyrirhugaðri aðalmeðferð í máli ákæruvaldsins gegn foringja og meðlimi Black Pistons sem átti að halda áfram í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Við upphaf þinghalds kom í ljós að gefin hefur verið út framhaldsákæra og þriðji maðurinn ákærður fyrir þátt sinn í málinu.

Manninum hefur ekki verið birt ákæra og var því ekkert hægt að segja til um efni hennar, en ljóst er að hann er ákærður fyrir þátt sinn í frelsissviptingunni. Kom þetta í ljóst eftir að skýrsla var tekin af fórnarlambinu á nýjan leik.

Í raun má segja að um sé að ræða unglingspilt því hann er fæddur árið 1994. Gert var ráð fyrir að hann myndi mæta sem vitni í málinu en það hefur sem sagt breyst. Við þinghaldið kom fram að ekki hefði verið hægt að hafa uppi á piltinum og því hefði honum ekki verið birt ákæran.

Af þessum sökum þurfti að fresta aðalmeðferðinni. Piltinum sem ákærður er verður gert að taka afstöðu til ákærunnar í milliþinghaldi sem og einnig hinum ákærðu. Þá er stefnt á að klára málið 12. október nk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert