Stálu vespu og skemmdu

Helgi Ólafsson er sár yfir skemmdun á vespunni.
Helgi Ólafsson er sár yfir skemmdun á vespunni. mbl.is/Árni Sæberg

„Það hljóta einhverjir að hafa verið að fíflast eða eitthvað. Ég þekki engan sem gæti viljað gera mér þetta og hef aldrei gert neinum neitt,“ segir Helgi Ólafsson, sextán ára nemi við Stýrimannaskólann í Reykjavík. Vespu hans var stolið fyrir utan heimili hans í Grafarvogi á dögunum. Hún fannst nokkrum dögum seinna, mikið skemmd.

Helgi læsir vespunni með mótorhjólalás. Það gleymdist þó í eitt kvöldið, er hann lagði fyrir við útidyrahurðina heima hjá sér. Honum fannst umhverfið eitthvað skrítið þegar hann kom út morguninn eftir, þriðjudaginn 30. ágúst, en áttaði sig fljótt á því að vespan var horfin.  

Málið var strax tilkynnt til lögreglu. Tveimur dögum seinna kom ábending um að vespan væri fyrir utan pizzastaðinn Trocadero í Grafarvogi. Hann fór strax úr skólanum til að vitja um hana.

Hann ætlaði ekki að trúa sínum eigin augum þegar hann sá vespuna. Búið var að saga stýrið af ásamt tilheyrandi börkum svo vespan er ónothæf og spurning hvort borgar sig að gera við hana. Helgi var ekki með kaskótryggingu fyrir hjólið svo hann ber tjónið sjálfur. Ný vespa kostar hálfa milljón. Viðgerð yrði einnig dýr.

Hvaða tilgangi þjónar þetta?

Þeir sem stálu vespunni hafa haft mikið fyrir því. Þeir hafa þurft að rúlla henni frá heimili hans að pizzastaðnum. Svo hafa þeir náð sér í járnsög og lagt töluverða vinnu í að saga stýrið í sundur.

Skemmdarverkið setur líf Helga úr skorðum því það tekur klukkutíma fyrir hann að fara með strætó í skólann. „Ég skil ekki hvernig nokkur manneskja getur fengið sig til að gera svona lagað. Hvaða tilgangi þjónar þetta?“ segir hann.

Helgi biður þá sem geta gefið upplýsingar um þjófnaðinn eða skemmdarverkið að hafa samband við Lögregluna á höfuðborgarsvæðinu, í síma 444 1000.

Stýrið var sagað af vespunni.
Stýrið var sagað af vespunni. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert