Ekkert athugavert við fjárfestingarstefnu Sjóðs 9

Í minnisblaði, sem LEX lögmannsstofa hefur unnið fyrir Íslandssjóði, dótturfélag Íslandsbanka, er niðurstaðan sú að miðað við þær upplýsingar sem liggja fyrir sé ekki sjáanlegt að neitt hafi verið athugavert við fjárfestingarheimildir, fjárfestingastefnu eða samsetningu eigna Sjóðs 9 hjá Glitni banka miðað við þágildandi lög og reglur.

Þá segir í minnisblaðinu að jafnvel þótt brotið hafi verið gegn ákvæði laga um verðbréfa- og fjárfestingasjóði með því að fá ekki formlega staðfestingu frá Fjármálaeftirlitinu fyrir útvistun áhættustýringar, sé ljóst að brotið geti ekki talist
vera meiri háttar í skilningi laganna og því hafi hvorki stjórnarmenn né starfsmenn gerst sekir um refsiverða háttsemi.

Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis sagði m.a. um fjárfestingastefnu verðbréfa- og fjárfestingasjóða fyrir hrun, að stefnur þeirra hefðu verið mjög almenns eðlis og draga mætti í efa að um raunverulega fjárfestingastenu væri að ræða. Einnig sagði nefndin, að áhættudreifingu fjárfestingarsjóðanna hefði verið ábótavant og fjárfestingar í eignarhaldsfélögum hefðu verið umfram það sem telja mætti eðlilegt.

Rannsóknarnefndin vísaði málum peningamarkaðssjóða til athugunar hjá sérstökum saksóknara. Í kjölfarið tók Illugi Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sér leyfi frá þingstörfum en Illugi sat í stjórn Sjóðs 9. 

Í minnisblaði LEX segir að ekki sé að finna umfjöllun  í skýrslu rannsóknarnefndarinnar um að Íslandssjóðir hafi í einstaka tilvikum brotið gegn sérgreindum hegðunarreglum um áhættustýringu í lögum eða reglugerðum. Að mati LEX geti þessi atriði því hvorki leitt til bótaskyldu né refsiábyrgðar.

Þá telur lögfræðistofan að Íslandssjóðir hafi ekki  brotið gegn reglu laganna um aðskilnað reksturs og vörslu og óhæði þótt ýmislegt hafi mátt gagnrýna út frá almennum viðhorfum um eðlilega og góða viðskiptahætti. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert