Stóðu upp og yfirgáfu fundinn

Frá fundinum á Patreksfirði í dag.
Frá fundinum á Patreksfirði í dag. mbl.is/Helgi Bjarnason

Meginþorri fundarmanna á opnum fundi um vegamál með Ögmundi Jónassyni innanríkisráðherra á Patreksfirði lýsti stuðningi við tillögu um að baráttu fyrir láglendisvegi yrði haldið áfram með því að standa upp og yfirgefa fundinn.

Nokkur hundruð manns komu í félagsheimilið á Patreksfirði áður en fundurinn um vegabætur á Vestfjarðavegi hófst. Utan við félagsheimilið stóðu nokkrar konur og börðu á búsáhöld og kröfðust svonefndrar láglendisleiðar. 

Eftir að Ögmundur og sveitarstjórar á svæðinu höfðu ávarpað fundinn stóð einn fundargesta upp og lagði til að íbúar samþykktu yfirlýsingu þar sem lýst væri vonbrigðum með þær hugmyndir sem innanríkisráðherra hefði lagt fram og að baráttunni fyrir láglendisleið yrði haldið áfram. Lagði hann jafnframt til að fundargestir greiddu atkvæði með tillögunni með því að standa upp og yfirgefa salinn. Gerði þorri fundarmanna það. 

Nokkrir tugir fundargesta sátu eftir og hélt fundurinn síðan áfram.

mbl.is