Engin húrrahróp

Steingrímur J. Sigfússon
Steingrímur J. Sigfússon Eggert Jóhannesson

Fjármálaráðherra telur ólíklegt að næsta fjármálafrumvarpi verði fagnað með húrrahrópum. Hann segir Ísland vera komið yfir það versta og að sárasti niðurskurðurinn sé að baki. Hann segir að helsta ógn Íslands stafi af ástandi efnahagsmála á alþjóðavísu.

„Auðvitað hefur þessi mikli samdráttur sem við höfum staðið fyrir haft mikil áhrif á rekstur ríkisins. En í raun hafa þessir atburðir á Íslandi haft áhrif á opinberan rekstur og vinnustaði á margvíslegan annan hátt.“

Þetta sagði Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra á morgunverðarfundi á vegum forstöðumanna ríkisstofnana og stofnunar stjórnsýslufræða og stjórnmála.

Hann sagði að mætt hefði á opinberum rekstri á margan annan hátt en að taka á sig niðurskurð. „Að sumu leyti er það alltaf hollt og gott að fara yfir hlutina og velta því fyrir sér hvort hægt sé að gera þá á annan hátt. Aðstæður af þessu tagi neyða menn til að hugsa að einhverju leyti upp á nýtt og það er ekki að öllu leyti slæmt,“ sagði fjármálaráðherra.

Hann benti á að frá árinu 2010 hefði ríkisstofnunum fækkað um 30 og ráðuneytum úr 12 í 10. „Við höfum sett á fót nýjar stofnanir,“ sagði fjármálaráðherra og nefndi í því sambandi embætti sérstaks saksóknara og eignaumsýslu Seðlabanka Íslands og fjármálaráðuneytisins.

Hann ræddi ennfremur um viðamiklar skipulagsbreytingar í opinberri þjónustu og benti í því sambandi á flutning málefna fatlaðra til sveitarfélaganna, það hefði staðið til í tvo áratugi og að í undirbúningi væri að flytja málefni aldraðra til sveitarfélaganna.

Steingrímur sagði að vonandi væri sárasti niðurskurðurinn í ríkisfjármálum að baki. „Afgangur verður eitthvað minni en fjárlagafrumvarpið gerði ráð fyrir, en við erum réttum megin við strikið,“ sagði hann.

„Ísland er ekki lengur nefnt á nafn þegar rætt er um þau ríki sem erfiðast eiga. Ísland er tvímælalaust komið í gegnum það versta, þetta er ekki búið, það er farið að sjá til lands, en það eru mörg áratök eftir,“ sagði fjármálaráðherra.

„Það, hvernig okkur gengur að rífa okkur upp úr þessu, fer eftir því hvernig gengur hjá löndunum í kringum okkur. Mesta óvissa Íslands tengist framvindu efnahagsmála á heimsvísu.“

„Það verður ekkert hrópað húrra fyrir fjármálafrumvarpinu sem lagt verður fyrir núna, en það er skárra en í fyrra,“ sagði Steingrímur og sagðist bera þá von í brjósti að enginn fjármálaráðherra næstu 50-100 árin þyrfti að leggja fram slík frumvörp.

mbl.is