Lögreglumenn vonsviknir og reiðir

Niðurstaða gerðardómsins um kjör lögreglumanna, sem kynnt var nú í dag, felur í sér 4,25% hækkun og sérstök álagsgreiðsla hækkar um 13 þúsund krónur. Snorri Magnússon, formaður Landssambands lögreglumanna, segir að hljóðið hafi verið mjög þungt í lögreglumönnum þegar þeir heyrðu niðurstöðuna.

„Það var mikil depurð í mönnum þegar þeir heyrðu dómsorðin," sagði Snorri.

Hann segist óttast frekara brottfall úr stéttinni. „Það er þegar búið að vera töluvert brottfall úr stéttinni frá árinu 2007, fækkað um nær 60 stöðugildi, vorum þá í kringum 712, erum 652 í dag og það er brottfall úr stéttinni enn. Menn eru að flytja með fjölskyldur sínar úr landi eins og stór hluti Íslendinga, menn eru að fara úr stéttinni í frekara nám og í önnur og betur launuð störf á hinum almenna vinnumarkaði."

Lýsa yfir mikilli reiði

Félagsfundur Lögreglufélag Norðurlands vestra hefur þegar sent frá sér ályktun þar sem lýst er yfir mikilli reiði og miklum vonbrigðum með niðurstöðu launaliðar gerðardómsins í dag.

„Lítur fundurinn svo á að lögreglumenn hafi verið niðurlægðir af ríkisvaldinu enn og aftur  eftir að hafa verið án kjarasamnings í nærri 300 daga.  Það er ljóst að lögreglumenn muni núna taka sér tíma til að sleikja sár sín og ákveða til hvaða aðgerða verði gripið í kjölfar dómsins," segir í ályktun fundarins.

Segir þar að fram hafi komið hjá lögreglumönnum, sem sóttu fundinn, að þeir muni ekki taka þessarri niðurstöðu þegjandi og  íhugi alvarlega hvort þeir geti hugsað sér að vinna áfram hjá atvinnurekanda sem ekki meti starfskrafta þeirra meir en dómurinn sýnir.

„Félagsfundurinn vill jafnframt taka fram að hann fagni þeim stuðning sem að lögreglumenn hafa fundið hjá hinum almenna borgara í orði og á borði sl. misseri.  Það er ljóst að sá stuðningur ríkir ekki hjá forráðamönnum þessarar þjóðar,“ segir í ályktuninni.
 mbl.is