Lítið eldgos í Kötlu í sumar

Katla
Katla mbl.is/Rax

Einar Kjartansson, jarðeðlisfræðingur á Veðurstofu Íslands, telur að lítið eldgos hafi orðið í Kötlu í sumar þegar talsvert hlaup varð í Múlakvísl. Þetta kom fram í fréttum Sjónvarpsins í kvöld.

Þegar hlaup koma undan sigkötlum í jökli bræðir jarðhiti jökulinn og vatn safnast fyrir og hleypur svo fram með látum er yfirleitt nokkuð stórt svæði sem sígur. Þegar hlaupið varð í Múlakvísl í sumar seig á fjórum stöðum í jöklinum og svo varð viðbótarsig í miðri sigdældinni sem varð mjög krappt. Það er fyrirbæri sem jarðeðlisfræðingar Veðurstofunnar höfðu ekki séð áður.

„Þetta er vísbending um að það hafi orðið mjög snögg bráðnun þarna undir. Jökullinn virðist hafa bráðnað mjög snögglega neðan frá og það er erfitt að sjá hvernig það á að hafa getað gerst öðruvísi en að það hafi orðið smá eldgos þarna undir,“ sagði Einar í samtali við fréttastofu RÚV í dag.

Til að renna frekari stoðum undir kenninguna um að lítið eldgos hafi orðið segir Einar að mikill órói hafi greinst á jarðskjálftamælum þennan dag, sambærilegur þeim sem gerist í eldgosum. Óróinn við Kötlu þennan dag hafi til að mynda verið meiri en sá sem mældist þegar gaus á Fimmvörðuhálsi í fyrra.

mbl.is

Bloggað um fréttina