Undrandi á ályktun lögreglumanna

Ólína Þorvarðardóttir.
Ólína Þorvarðardóttir.

Ólína Þorvarðardóttir alþingismaður furðar sig á ályktun lögreglumanna sem telja að hún hafi sýnt þeim vanvirðingu. Þetta kemur fram á bloggsíðu þingmannsins.

„Lögreglumenn eru stórmóðgaðir við mig núna og hafa ályktað um það á sérstökum fundi að ég skuli biðja þá afsökunar á að hafa sýnt þeim „vanvirðingu“.

Ekki fylgir sögunni hvaða orð það eru nákvæmlega í mínum ummælum sem fela í sér vanvirðu við lögregluna – og nú er mér vandi á höndum.

Hvort skyldi það nú vera sá hluti bloggfærslu minnar eða títtnefnds viðtals í Síðdegisútvarpinu í gær þar sem ég lýsi stuðningi við og skilningi á kjarabaráttu lögreglumanna ….

eða sá hluti bloggfærslu og viðtals þar sem ég votta starfi þeirra virðingu mína …

eða sá hluti viðtalsins þar sem ég viðra þá hugmynd að einhverjir aðrir geti hugsanlega staðið heiðursvörð um Alþingishúsið á laugardaginn, úr því að lögreglan hefur ákveðið að gera það ekki.

Í ljósi yfirlýsinga sem fallið hafa af hálfu lögreglunnar í minn garð í dag verð ég að segja þetta:

Ef lögreglan bregst svona við stuðnings yfirlýsingu, virðingarvottun og/eða almennum hugleiðingum um það hvernig heiðra megi þjóðþingið … við hverju mega þeir þá búast sem raunverulega eru andsnúnir málflutningi og framgöngu lögreglumanna um þessar mundir,“ segir Ólína á bloggsíðu sinni.

mbl.is

Bloggað um fréttina