Vill fresta viðræðum í 18-24 mánuði

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, lagði til á fundi í Háskóla Íslands í dag að umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu yrði sett í bið í 18-24 mánuði á meðan Ísland tæki til í sínum málum. Að þessum tíma liðnum væri líka betur ljóst hvernig ESB hefði gengið að vinna úr sínum málum.

Sigmundur Davíð sagði að ekki hefði verið lagt af stað í aðildarviðræður á réttum forsendum. Málið hefði verið lagt þannig upp að það myndi ekki gagnast Íslandi eða Evrópusambandinu. Menn hefðu valið versta hugsanlegan tíma til að sækja um. Ekki hefði verið sótt um á grundvelli ítarlegrar umræðu um kosti og galla aðildar.

Sigmundur Davíð sagði að eftir að sótt var um aðild hefði ýmislegt breyst. ESB gengi í gegnum mikla og alvarlega krísu og ljóst að aðeins tvennt gæti gerst, að ESB þróaðist í átt til sambandsríkis eða að það gliðnaði í sundur.

Sigmundur Davíð vitnaði til orða Roberts Atkins, sem á sæti á Evrópuþinginu, en hann sagðist hafa áhyggjur af umsókn Íslands. Niðurstaða hans væri að Íslendingar ættu að biðja um að frestun á viðræðum við ESB í 18-24 mánuði. Íslandi ætti að nota tímann til að koma sínum málum í lag. Að þeim tíma liðnum ættu Íslendingar að taka afstöðu til umsóknarinnar í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ef samþykkt yrði að halda áfram væri komið það umboð sem umsókn Íslands hefði skort.

Sigmundur Davíð sagðist áður hafa lýst sömu viðhorfum til umsóknarinnar. „Það að leggja þessa umsókn til hliðar hentar í raun og veru öllum. Við vitum að það stendur ekki til að setja þetta í þjóðaratkvæðagreiðslu næstu misserin. Utanríkisráðherra er búinn að lýsa því yfir sjálfur að það sé langt í að Íslendingar greiði um þetta atkvæði og í millitíðinni verði ESB orðið sterkara en nokkru sinni fyrr,“ sagði Sigmundur Davíð.

Hann sagði alveg ljóst að það væru einhver ár í að við greiddum atkvæði um samning um aðild. Hann spurði hvers vegna við ættum að hafa alla samfélagsumræðu á Íslandi í heljargreipum þannig að við gætum ekki tekið ákvörðun um grundvallaratriði án þess að umsókn um ESB blandaðist alltaf inn í það.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert