Forsetinn býður í pönnukökur

Fyrr í dag var skrifað undir víðtækt samstarf innan ferðaþjónustunnar. Veigamesti hluti þess er átakið Ísland allt árið sem miðar að því að jafna árstíðabundnar sveiflur í greininni. Ríkið hefur skuldbundið sig til að verja allt að 900 milljónum kr. í verkefnið á næstu þremur árum.

Hluti af átakinu felst í því að hvetja Íslendinga til að bjóða ferðamönnum til að gera eitthvað skemmtilegt með sér. Forsetinn hefur boðið til pönnukökuveislu úti á Bessastöðum og iðnaðarráðherra vonast til að ferðamenn fari með henni í fótabað úti á Seltjarnarnesi.

„Þetta hefur gífurlega mikla þýðingu því að hér erum við að leggja af stað í að lengja ferðamannatímabilið. Gera ferðaþjónustu að heilsársatvinnugrein fyrir fleiri heldur en nú er. Það þýðir fleiri heilsársstörf, meiri gjaldeyristekjur og betri arðsemi í greininni,“ segir Árni Gunnarsson, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar.

„Þetta skiptir máli, hvað það varðar, að fjölga hér ferðamönnum yfir vetrartímann. Sem fjölgar störfum, eykur gjaldeyristekjurnar og líka styrkir fjárfestingar í ferðaþjónustu til mikilla muna,“ segir Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra. Þetta sé þriggja ára fjárfestingarverkefni. Ekki sé verið að tjalda til einnar nætur.

Nánar á Inspired By Iceland.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert