Færri drekka og reykja hass

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, var við setningu bókmenntahátíðarinnar í …
Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, var við setningu bókmenntahátíðarinnar í Frankfurt mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Niðurstöður rannsókna meðal unglinga í 10. bekk á Íslandi sýna að hlutfall unglinga sem urðu  drukknir undanfarna 30 daga hefur lækkað úr 42% árið 1998 í aðeins 9% árið 2011. Hlutfall unglinga sem reykja daglega hefur lækkað úr 23% í 5% og hlutfall þeirra sem hafa prófað hass farið úr 17% í 13%.

Þetta var tilkynnt á blaðamannafundi í Frankfurt í dag, sem haldinn var í tilefni af forvarnarátakinu Ungt fólk í Evrópu eða Youth in Europe, sem ráðist verður í í fjölmörgum borgum í Evrópu á næstu misserum. Er það byggt á íslenskri fyrirmynd, unnið í samstarfi við evrópskar borgir og sér Reykjavíkurborg um verkefnastjórnun, en Rannsóknir og greining um rannsóknirnar. Markmiðið er að minnka líkurnar á notkun fíkniefna meðal ungs fólks.

Á blaðamannafundi í Frankfurt í dag var tilkynnt að Actavis yrði áfram fjárhagslegur bakhjarl í Evrópu og nær samningurinn um samstarf til ársins 2016.

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, ávarpaði blaðamannafundinn og sagði að Íslendingar hefðu náð góðum árangri í baráttunni gegn fíkniefnaneyslu ungs fólks. Hann sagði að sá árangur hefði náðst með því að byggja forvarnirnar á rannsóknum. Þannig hefði til dæmis verið sýnt fram á að mikilvægt væri að ungt fólk verði klukkutíma á dag með fjölskyldu sinni, stundaði íþróttir eða tómstundir með vinum og hæfi ekki áfengisneyslu fyrr en um 17 til 19 ára aldur. Ef þetta gengi eftir væru minna en 1% líkur á að það leiddist út í eiturlyf. En ef áfengisneyslan hæfist um 13 til 14 ára aldur væru líkurnar hinsvegar mun meiri.

Borgirnar sem taka þátt í verkefninu eru Reykjavík, Ósló, Helsinki, Riga, Vilnius, Sófía, Búkarest, Istanbúl, St. Pétursborg, Liepaja, Jurmala, Arilje, Kaunas og Klaipeda. Mílanó og Moskva hafa einnig skrifað undir og vonast aðstandendur verkefnsins til að borgirnar verði orðnar 25 haustið 2012 og 50 árið 2016.

„Íslenskir sérfræðingar hafa í meira en áratug rannsakað hvað það er sem skilar árangri í forvörnum,” sagði Claudio Albrecht, forstjóri Actavis, af þessu tilefni. „Actavis er alþjóðlegt fyrirtæki, en við erum stolt af íslenskum uppruna fyrirtækisins og ætlum að leggja okkar af mörkum til að kynna þessa nálgun í forvörnum í Evrópu.”

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert