Black Pistons-málið heldur áfram

Héraðsdómur Reykjavíkur
Héraðsdómur Reykjavíkur mbl.is

Aðalmeðferð í Black Pistons-málinu svonefnda verður framhaldið fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Málið vatt upp á sig þegar gefin var út framhaldsákæra í miðri aðalmeðferð en stefnt er því að klára málið fyrir lok dags.

Dagurinn hefst á því að því að fórnarlambið í málinu gefur á nýjan leik skýrslu en í framhaldinu verður tekin skýrsla af sakborningum og vitnum. Að lokum verður málið flutt af ákæruvaldinu og verjendum sakborninga.

Eins og komið hefur fram eru Ríkharð Júlíus Ríkharðsson og Davíð Freyr Rúnarsson ákærðir fyrir að svipta ungan mann frelsi sínu og ráðast ítrekað á hann á um hálfum sólarhring, eða þar til fórnarlambið slapp frá þeim. Aðalmeðferð í málinu var hafin þegar fórnarlambið upplýsti um þátt þriðja mannsins, Brynjars Loga Barkarsonar. Þurfti því að gefa út framhaldsákæru. Ríkharð er sagður foringi vélhjólasamtakanna Black Pistons og Davíð Freyr meðlimur.

Áður hafði Davíð játað sök að hluta, þ.e. fyrir að hafa ráðist að manninum unga. Hann neitaði því hins vegar að honum hafi verið haldið gegn vilja sínum. Ríkharð neitaði hins vegar sök.

Þriðji maðurinn, Brynjar Logi Barkarson, er aðeins sautján ára. Hann átti upphaflega að koma fyrir dóminn sem vitni, eða þar til fórnarlambið í málinu lýsti því hjá lögreglu að hann hefði átt hlut að máli. Hann neitar sök.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert