Krefst þriggja ára fangelsis

Sakborningar í málinu.
Sakborningar í málinu. mbl.is

Saksóknari fer fram á þriggja ára óskilorðsbundið fangelsi yfir foringja og meðlimi Black Pistons fyrir stórfellda líkamsárás, frelsissviptingu og tilraun til ráns. Þá er farið fram á eins og hálfs árs fangelsi yfir 17 ára pilti sem einnig er ákærður.

Ríkharð Júlíus Ríkharðsson og Davíð Freyr Rúnarsson eru ákærðir fyrir að svipta ungan mann frelsi sínu og ráðast ítrekað á hann á um hálfum sólarhring í maí síðastliðnum, eða þar til fórnarlambið slapp frá þeim. Ríkharð er sagður foringi vélhjólasamtakanna Black Pistons og Davíð Freyr meðlimur. Þá var Brynjar Logi Barkarson, 17 ára, ákærður fyrir hlutdeilt í frelsissviptingunni og tilrauninni til ráns.

Ungi maðurinn hefur haldið því fram að ástæðan sem honum var gefin fyrir ofbeldinu var sú að hann hefði svikið þá. Hann kannast hins vegar ekki við það. Með svikunum hefði stofnast til skuldar upp á tíu milljónir sem hann átti að greiða, m.a. með því að stela flatskjáum og svíkja út vörur.

Við málflutning eftir hádegið sagði saksóknari að hafa verði í huga að þó tæknilega séð hafi maðurinn getað flúið þá var honum margoft hótað og fjölskyldu hans einnig. Hann hafi því ekki þorað það. „Sækjandi telur það eðlilegt og áverkarnir þess eðlis að full ástæða var til að vera hræddur við þessa menn,“ sagði Hulda María Stefánsdóttir saksóknari.

Hún sagði að mennirnir hefðu svipt fórnarlambið frelsi til að hafa af því fjármuni. Þeir hafi skipt með sér verkum og séu því allir aðalmenn. Þá hafi þeir beitt vopnum við árásir á fórnarlambið. Hvað varðar tilraun til fjársvika sagði Hulda að fórnarlambinu hefði verið hótað með ofbeldi og gert að greiða skuld. Búið var að ráðgera að fara í fjármálastofnanir og farðað yfir áverka í því skyni.

Gert út á reikulan framburð fórnarlambs

Verjendur ákærðu voru ósammála saksóknara í flestum atriðum. Fyrst og fremst gerði þeir þó lítið úr framburði fórnarlambsins en hann hefur tekið miklum breytingum frá fyrstu skýrslutöku. Sögðu þeir að reikull framburður unga mannsins væri til þess fallinn að gögn málsins þurfi að fá meira vægi. Hins vegar væri ekki hægt að sanna alvarlegustu ákæruatriðin með þeim gögnum.

Einnig féllust þeir ekki á að heimfæra ætti líkamsárásina sem stórfellda líkamsárás enda væru áverkarnir ekki slíkir, nema kannski nefbrot en ekki sé ljóst að það hafi hlotist í árásinni eða hvernig.

Þá voru þeir eiginlega gáttaðir á því að ákært væri fyrir tilraun til ráns. Það sé algjörlega ósannað og ekki stutt neinum gögnum. Eina sem fyrir liggi er að fórnarlambið segi að heimtað hafi verið að það ætti að útvega verðmæti. Engin skjalleg gögn eða vitnisburðir styðji það hins vegar. Ekki hafi verið reynt að stela neinu.

 Ennfremur sagði verjandi Davíðs að samkvæmt verknaðarlýsingu væri frekar um að ræða ólögmæta nauðung en frelsissviptingu. Sem þetta hefði þó ekki heldur verið.

Hvað varðar refsinguna bentu verjendur á að svo þung refsing væri ekki í samræmi við dómafordæmi og ekki í samræmi við dóma í alvarlegri málum. Þá sé ekkert í þessu máli sem kalli á að dómurinn fari í svo þunga refsingu.

Pétur Guðgeirsson dómformaður í fjölskipuðum dóm sagði við lok aðalmeðferðar að dómur myndi að öllum líkindum verða kveðinn upp í næstu viku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert