Tákn um ævarandi vinskap

Sigurður Guðmundsson og Horst Korske
Sigurður Guðmundsson og Horst Korske mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Það var hjartnæm stund þegar Sigurður Guðmundsson á Goðafossi og Horst Koske loftskeytamaður á þýska kafbátnum U-300 sem sökkti skipinu niður í heimsstyrjöldinni síðari hittust á bókastefnunni í Frankfurt í dag og féllust í faðma. Þetta er í fyrsta skipti sem menn úr áhöfnunum hittast og var varla þurr hvarmur í salnum.

Þetta var á blaðamannafundi sem haldinn var til að kynna bókina Goðafoss, sem kom út á þýsku í dag, en þar er fjallað um atburðinn hörmulega, 10. nóvember árið 1944. Höfundar bókarinnar eru Óttar Sveinsson og Stefan Krücken og er hún byggð að hluta á bókinni Útkall – árás á Goðafoss. Ekki fór á milli mála að mikill áhugi er á bókinni, enda var íslenski skálinn troðfullur af erlendum fréttamönnum og bókaáhugafólki.

Áður hafði Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra flutt ræðu, þar sem hann talaði um mikilvægi skilnings og fyrirgefningar, og leikarinn Joachim Krol lesið upp úr bókinni ásamt Thomas Böhm, bókmenntaráðunaut Sögueyjunnar Íslands í Þýskalandi.

„Þetta var óendanlega hjartnæm stund,” sagði Óttar Sveinsson. „Báðir mennirnir táruðust. Ég er í raun inni búinn að bíða eftir þessu augnabliki í átta ár og það var augljós vinskapur sem myndaðist. Ég vonast til að þetta verði til þess að það styrki vinskapinn milli Íslands og Þýskalands – verði tákn um ævarandi vinskap.”

Nánar verður fjallað um atburðinn og rætt við Sigurð og Koske í Morgunblaðinu á morgun.

mbl.is