„Get down, get down“

Frank Michelsen úrsmíðameistari í verslun sinni í desember síðastliðnum. Verslunin …
Frank Michelsen úrsmíðameistari í verslun sinni í desember síðastliðnum. Verslunin var rænd í morgun. Eggert Jóhannesson

„Það kemur maður inn með skammbyssu og beinir henni beint í andlitið á mér og segir á ensku: Get down, get down (leggstu niður),“ sagði Frank Michelsen úrsmíðameistari, en verslun hans við Laugaveg var rænd í morgun.

„Ég sat við vinnuborð og var að gera við úr, rétt innan við þil innan við dyrnar. Inni á kaffistofu sat sonur minn að vinna í tölvunni og svo var afgreiðslustúlka að vinna þarna. Við vorum þrjú í búðinni,“ sagði Frank.

Þau voru nýbúin að opna búðina klukkan 10.00 í morgun þegar ræningjarnir ruddust inn um 15-20 mínútum síðar. Frank sagði það ekkert grín að verða fyrir svona lífsreynslu. Þetta hefði gerst snöggt og ef til vill áttaði maður sig ekki á þessu fyrr en síðar.

Frank sagðist hafa haldið í fyrstu að þetta væri eitthvert grín, en þegar hann leit upp sá hann að maðurinn var með hulið andlit og sást bara í augun á honum. „Þá vissi ég að það var alvara á ferðum því það kom annar á eftir honum. Ég leggst á gólfið og segi starfsfólki mínu að leggjast niður líka og gera allt sem þeir segja,“ sagði Frank.

Ræninginn talaði ensku með hreim

Ræningjanum þótti Frank ekki bregðast nógu fljótt við og öskraði aftur á hann að leggjast niður. Skömmu síðar hljóp af skot. Frank sagði að maðurinn hefði alltaf ávarpað hann á ensku, en með hreim. En létu ræningjarnir eins og þeir væru kunnugir staðháttum?

„Þeir voru kunnugir. Þeir gengu beint að skápunum sem Rolex-úrin voru í,“ sagði Frank. „Þeir tóku Rolex-, Tudor- og Michelsen-úr.“ Rolex-úrin eru dýrust, Tudor er kallað „litli bróðir Rolex“ og framleiðir Rolex merkið en úrin kosta um helming af því sem Rolex-úr kosta. Michelsen-úrin voru úti í glugga og voru tekin með.

En höfðu þau orðið vör við að það kæmu njósnarar í búðina fyrir ránið?

„Þegar við hugsum til baka þá getum við alveg hugsað okkur það - að það hafi verið hérna einn á laugardaginn og svo einn í vikunni síðustu. En þetta er ekkert sem við vorum að hugsa um þá. Þetta var bara ósköp venjulegur mánudagsmorgunn í morgun,“ sagði Frank. En hvernig er að koma svona vöru í verð?

„Ef þú veist að þú ert að kaupa þýfi þá geturðu keypt þetta,“ sagði Frank. „Hvert einasta úr hefur sína kennitölu og hún er sýnileg. Ef einhverjum býðst úr þá er mjög einfalt að hringja og spyrja hvort þetta úr sé í lagi. Það sem gerist nú er að Rolex og lögreglan fá lista yfir úrin sem stolið var. Síðan verða þetta „heit úr“ í framtíðinni. Ef þau koma í þjónustu hjá Rolex einhvers staðar þá stoppa þau þar.“

Voru ógnandi í framkomu

Frank sagði að ræningjarnir hefðu verið mjög ógnandi í framkomu. Þeir voru með verkfæri til að brjóta öryggisglerið í sýningarskápunum og hlaust af mikill hávaði og glerbrotin fóru út um allt eins og eftir sprengingu.

Í versluninni er mjög vandað kerfi eftirlitsmyndavéla og náðust myndir af ráninu frá öllum sjónarhornum. En hyggst Frank breyta búðinni til að efla varnirnar enn frekar?

„Maður hugsar sig um og reynir alltaf að gera betur. Ég er með mjög öflugt myndavélakerfi og þjófavörn. Þeir láta mig í friði á nóttunni núorðið en það er spurning með daginn. Hvernig getum við varið okkur? Það að setja upp tvöfalda hurð, eins og erlendis, hefur fælandi áhrif á almenning, venjulega viðskiptavini,“ sagði Frank.

„Það er spurning hvort við verðum að vera með sérdeild fyrir Rolex-úr sem verður opnuð eftir þörfum. Þetta er nokkuð sem við þurfum að ræða við tryggingafélagið og öryggisfyrirtækið okkar og sjá hvað hægt er að gera til að verjast.“

Frank sagði það mikilvægast að þau sem voru í búðinni hefðu öll sloppið ómeidd líkamlega frá ráninu. „Við hættum ekki lífi og limum fyrir dauða hluti, en við eigum eftir að athuga hvernig verður með það sálarlega.“

Starfsfólkið var farið heim þegar mbl.is ræddi við Frank nú síðdegis. Hann varð að vinna áfram og gera við úr sem á að vera tilbúið í fyrramálið. Það verður að standa við það sem búið er að lofa viðskiptavinunum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert