Ná atvinnuleysi niður í 4-5%

Frá landsfundi Samfylkingarinnar í dag.
Frá landsfundi Samfylkingarinnar í dag. mbl.is/Golli

Jóhanna Sigurðardóttir sagði þegar hún setti landsfund Samfylkingarinnar í dag að mörg mikilvæg verkefni væru framundan sem yrði að leiða til lykta áður en kjörtímabilinu lyki. Þar á meðal væri að koma atvinnulífinu á fullt skrið og ná atvinnuleysi niður í 4-5%.

Þá sagði Jóhanna að ljúka yrði endurskoðun fiskveiðistjórnunarkerfisins, endurskoðun stjórnarskrárinnar og fá fram afstöðu þjóðarinnar til fyrirliggjandi tillagna, ljúka aðildarviðræðum Íslendinga við Evrópusambandið, samþykkja rammaáætlun um verndun og nýtingu náttúrusvæða og stofna Auðlindasjóð sem annist og ávaxti með sjálfbærum hætti arð þjóðarinnar af auðlindum hennar.

Jóhanna sagði einnig að áður en gengið yrði til kosninga yrði að lögfesta nýtt og einfaldara almannatryggingakerfi, þar sem brugðist væri við víxlverkunum og fátæktargildrum og leggja  grunn að nýju húsnæðiskerfi, þar sem valfrelsi og öruggt húsaskjól fyrir alla tekjuhópa væru grundvallarþættir. Þá yrði að hefja endurreisn fæðingarorlofssjóðs og lögfesta lengingu orlofsins eins og til stóð.

„Ég heiti á okkur öll að gera það sem í okkar valdi stendur til að ná fram þessum stóru og mikilvægu málum og marka þannig farsæla braut fyrir þróun íslensks samfélags til framtíðar. Þetta eru að mínu mati mikilvægustu erindi Samfylkingarinnar við þjóðina á síðari hluta kjörtímabilsins. Ég heiti því að gera allt sem í mínu valdi stendur til að koma þessum málum í höfn áður en þessu kjörtímabili lýkur," sagði Jóhanna. 

Jóhanna Sigurðardóttir flytur setningarræðu sína í dag.
Jóhanna Sigurðardóttir flytur setningarræðu sína í dag. mbl.is/Golli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert