Ísland hefur ekki farið verst út úr kreppunni

Paul Krugman.
Paul Krugman. Reuters

Paul Krugman, nóbelsverðlaunahafi í hagfræði, segir í föstum dálki sínum í bandaríska blaðinu New York Times, að Ísland hafi alls ekki farið landa verst út úr fjármálakreppunni.

Krugman segist vera að að rannsaka stöðu Íslands áður en hann fari þangað í næstu viku en hann mun taka þátt í ráðstefnu, sem íslensk stjórnvöld og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn halda  á fimmtudag um lærdóma af efnahagskreppunni og verkefnin framundan.

Hann segir að þegar umfang fjármálahrunsins varð ljóst hafi Ísland verið tekið sem dæmi um hvaða afleiðingar ábyrgðarleysi fjármálastofnana hafði í för með sér. En nú sé staðan hins vegar sú, að Íslendingar virðist standa betur en margar þeirra þjóða, sem urðu verst úti í hruninu.

Aðalástæðan sé sú, að Íslendingar neituðu að axla ábyrgð á þeim skuldum, sem bankamenn höfðu hlaðið upp. Einnig hafi Íslendingar getað látið gengi krónunnar lækka mikið og þannig fengið forskot á þær þjóðir, sem annaðhvort voru með evru eða tengdu gjaldmiðla sína við þá mynt. 

Þessi ríki hafi orðið fyrir því, að gjaldeyrir hætti skyndilega að flæða inn í löndin.

Pistill Krugmans

mbl.is