Krefst lögbanns á starfsemi fyrrum forstjóra

Matthías Imsland.
Matthías Imsland.

Iceland Express hefur krafist lögbanns á að Matthías Imsland, fyrrum forstjóri félagsins, nýti sér trúnaðarupplýsingar sem hann bjó yfir í starfi sínu þar til að vinna að stofnun annars flugrekstrarfélags.

Þetta kemur fram í Fréttablaðinu. Í gærkvöldi var tilkynnt að Matthías væri hluthafi í nýju flugfélagi ásamt Skúla Mogensen, aðaleiganda MP banka, og fleirum og félagið ætlaði að hefja næsta vor flugrekstur og bjóða upp á flug á milli Íslands og annarra Evrópuríkja.

Fréttablaðið segir að í lögbannskröfunni komi fram að Matthíasi hafi verið sagt upp störfum hjá Iceland Express 19. september síðastliðinn fyrir að hafa fegrað bókhald félagsins. Matthías hafi haldið tölvum og símum sem félagið ætlaði að greiða fyrir þar til uppsagnarfresti lyki 1. apríl á næsta ári. Í tvö ár þar á eftir megi hann ekki fara í samkeppni við Iceland Express og í þrjú ár megi hann ekki hagnýta sér trúnaðarupplýsingar sem hann hafði aðgang að sem forstjóri.

Lögmaður Matthíasar Imsland segir lögbannskröfu Iceland Express á hendur honum fráleita og eingöngu til þess að sverta hann og kasta rýrð á störf hans. Matthías tekur þátt í stofnun nýs flugfélags sem hefja á starfsemi í vor.

Í tilkynningu kemur fram að fjárfestingarfélagið Títan, sem er að fullu í eigu Skúla Mogensen fjárfestis, hafi um hríð skoðað kosti þess að hefja flugrekstur til og frá Íslandi.

Sú vinna sé nú á lokastigi. Félagið hyggst hefja flug til Evrópu í vor. Títan á meirihluta í félaginu en meðal annarra hluthafa er Matthías Imsland, fyrrverandi forstjóri Iceland Express.

Fréttablaðið greinir frá því í dag að Iceland Express hafi krafist lögbanns á að Matthías notfæri sér trúnaðarupplýsingar frá félaginu til að vinna að stofnun annars fyrirtækis í flugrekstri. Í kröfunni komi meðal annars fram að Matthías hafi verið rekinn úr starfi forstjóra fyrir að fegra bókhald félagsins.

Bætt við fréttina klukkan 8:35

Í yfirlýsingu sem lögmaður Matthíasar, Jóhannes Árnason, sendi frá sér í morgun, segir að þessi krafa eigi sér enga stoð í lögum eða skriflegum samningum. Raunverulegt markmið kröfugerðarinnar sé að sverta Matthías og reyna að kasta rýrð á störf . Skoðað verði gaumgæfilega hvort ástæða sé til að höfða mál vegna rógs og tilhæfulausra ásakana sem fram koma í lögbannskröfunni.

„Af gefnu tilefni vil ég óska eftir að eftirfarandi komi fram. Lögbannskrafa Pálma Haraldssonar á hendur skjólstæðingi mínum, Matthíasi Imsland, á sér enga stoð í lögum né í skriflegum samningum. Ráðningarsamningur Matthíasar Imsland, og ákvæði um takmarkanir á atvinnufrelsi hans, féllu úr gildi um leið og Pálmi kaus að segja honum upp. Allir geta velt því fyrir sér hversu trúverðugt það er að aðili sem gerir út á mikilvægi samkeppni í auglýsingum, beiti á sama tíma þvingunarúrræðum til að bregða fæti fyrir samkeppni í flugrekstri. Öllum má jafnframt vera ljóst hvert sé raunverulegt markmið þessarar dæmalausu kröfugerðar – það er að sverta skjólstæðing minn og gera tilraun til að kasta rýrð á störf hans á nýjum vettvangi.

Nýlega hætti eftirmaður skjólstæðings míns hjá Iceland Express störfum eftir einungis 12 daga í starfi og mátti hann í kjölfarið þola atlögu í fjölmiðlum þar sem dylgjað var um störf hans. Nú er það skjólstæðingur minn sem er skotmarkið. Átelja verður vinnubrögð gerðarbeiðandans í málinu, en þau eru fyllilega óásættanleg og ótrúlegt er að slíkar rangar ásakanir séu hafðar uppi í þessum tilgangi.

Þess má að lokum geta að skoðað verður gaumgæfilega hvort ástæða sé til að höfða mál vegna rógs og tilhæfulausra ásakana sem fram koma í lögbannskröfunni. En fyrst verður farið fram á það að Sýslumaðurinn í Reykjavík hafni þessari fráleitu kröfugerð Pálma Haraldssonar og mun ég mæta fyrir hönd skjólstæðings míns og leggja fram gögn því til stuðnings," segir í yfirlýsingu frá Jóhannesi.

mbl.is

Bloggað um fréttina