Lausn þar til nýtt fangelsi rís

Réttargeðdeildin á Sogni í Ölfusi.
Réttargeðdeildin á Sogni í Ölfusi. Mynd/Sigurður Jónsson

Á fundi þingmanna Suðurkjördæmis og sveitarstjórnarmanna í Árnessýslu í gær setti Ari Björn Thorarensen, forseti bæjarstjórnar Árborgar, fram þá hugmynd að flytja starfsemi kvennafangelsisins í Kópavogi á Sogn í Ölfusi. Þar er nú rekin réttargeðdeild sem áætlað er að loka og flytja starfsemi hennar til Reykjavíkur.

„Auðvitað vilja menn á þessu svæði að starfsemin sem er nú á Sogni haldi þar áfram. Það er svosem ekki alveg búið að loka á það en menn eru ekki bjartsýnir. Á fundinum í gær var rætt um að það væri gott að koma annarri starfsemi strax inn í þetta hús. Þá setti ég fram þessa hugmynd," segir Ari. Hann segir þingmennina hafa tekið vel í hugmynd sína og hún hafi hlotið góðan hljómgrunn víðar.

Ari lagði til að kvennafangelsið í Kópavogi flytji starfsemi sína að Sogni og starfsemi Hegningarhússins við Skólavörðustíg, sem er á síðasta snúning, verði flutt í húsnæðið í Kópavogi. Gæti það sparað ríkinu þá tvo milljarða sem kostar að byggja nýtt fangelsi á Hólmsheiði. „Ögmundur hefur verið mjög fastur á þeirri skoðun að byggja nýtt fangelsi fyrir tvo milljarða króna á Hólmsheiði. Fangelsismálastofnun vill fylgja honum í þeirri vegferð. En fangelsi á Sogni gæti líka verið ágætis viðbót þar til nýtt fangelsi rís. Það tekur nokkur ár að byggja það og þetta gæti verði lausn þangað til."

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert