Margar ungar konur missa bótarétt

Mótmælendur á Austurvelli mótmæltu miklu atvinnuleysi.
Mótmælendur á Austurvelli mótmæltu miklu atvinnuleysi. mbl.is/Ómar Óskarsson

Samtals missa 882 einstaklingar bótarétt hjá Atvinnuleysistryggingasjóði um næstu áramót vegna þess að þeir hafa verið atvinnulausir í þrjú ár. Þar af eru 164 ungar konur með börn á framfæri. Þetta kemur fram í yfirliti frá hagdeild ASÍ.

Ríkisstjórnin áformar að framlengja bótarétt í fjögur ár, en þó þannig að þrír mánuðir verði bótalausir eftir að fólk hefur verið þrjú ár á atvinnuleysisskrá. Takist fólki ekki að fá vinnu kemur það í hlut sveitarfélaganna að sjá þeim fyrir framfærslu í þessa þrjá mánuði. Sveitarfélögin hafa lýst andstöðu við þessa tillögu. Halldór Halldórsson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, segir að þetta kalli á aukin útgjöld sveitarfélaga, en útgjöld þeirra vegna fjárhagsaðstoðar hafa aukist mikið eftir hrun. Sveitarfélögin hafa óskað eftir fundi með velferðarráðherra um þessa tillögu og er fyrirhugað að fundurinn verði haldinn í næstu viku.

Af þessum 882 sem hafa verið án vinnu í þrjú ár eru 179 á aldrinum 16-29, 373 eru á aldrinum 30-49 ára og 330 eru eldri en 50 ára.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert