Neikvæð viðbrögð vegna ábendingar

Sóley Tómasdóttir oddviti Vinstri grænna í Reykjavík.
Sóley Tómasdóttir oddviti Vinstri grænna í Reykjavík. Gunnar Svanberg Skulason

Ábending Sóleyjar Tómasdóttur, borgarfulltrúa Vinstri grænna, um kynjahlutföll fyrirlesara á ráðstefnu stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um efnahagskreppuna hafa vakið hörð viðbrögð. Í athugasemdum, sem skrifaðar eru við fréttina á ýmsum netmiðlum, eru afar óviðeigandi ummæli um persónu og störf Sóleyjar vegna þessarar ábendingar hennar.

„Það virðist vera ákveðinn hópur sem lítur á það sem sérstakar öfgar eða óhóflegar kröfur að sjónarmið beggja kynja komi fram þar sem ráðum er ráðið. Það sem mér sýnist á þessum ummælum er að þetta sé sú klassíska aðferð að útmála persónuna, frekar en það sem hún segir,“ segir Sóley.

Margar af athugasemdunum fela í sér að engu máli skipti af hvoru kyninu fólk sé, heldur hafi einfaldlega verið kallaðir til færustu sérfræðingar á sínu sviði og að svo hafi viljað til að allir hafi verið karlar.

„Hver skilgreinir það hverjir eru helstu sérfræðingar heims?“ spyr Sóley. „Það er fullt af hæfum körlum og konum á öllum sviðum og ef okkur finnst skipta máli að hafa bæði karla og konur, þá gerum við það.“

Sóley segir að þetta hafi áhrif á efnistökin. „Mér finnst sérstakt að ekkert var fjallað um kynjaða hagstjórn. Ráðinn hefur verið sérfræðingur og það á að innleiða hana. Ef ég nefni annað dæmi, þá er það kynbundið ofbeldi. Það hefur stóraukist frá kreppu og er rándýrt fyrir samfélagið. Ætlum við ekkert að skoða það?“

Sóley segist hafa heyrt frá samstarfsfólki sínu innan Vinstri grænna að fyrirkomulag ráðstefnunnar hafi verið gagnrýnt vegna ójafns kynjahlutfalls. „Það var farið fram á að þetta yrði leiðrétt, en það var ekki gert.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert