Vilja hreinsa hættulegan gaddavír

Björgunarsveitarmenn losa hreindýr sem var illa flækt í gaddavírsgirðingu.
Björgunarsveitarmenn losa hreindýr sem var illa flækt í gaddavírsgirðingu. www.landsbjorg.is

Hópur dýraverndunarsinna af höfuðborgarsvæðinu, í samstarfi við Náttúrusamtök Austurlands, er nú á leið á flatir á Mýrum þar sem markmiðið er að útrýma vandamáli sem stafar af gaddavírsgirðingum sem liggja niðri og eru ógn við hreindýr á svæðinu. Að minnsta kosti tvö hreindýr hafa drepist í haust eftir að hafa flækst í gaddavír.

„Þetta er búið að vera vandamál í mörg ár sem hvorki bændur né sveitarstjórn Hornafjarðar hafa náð að leysa og við teljum tímabært að það sé gripið í taumana og bætt úr þessu svo ekki sé verið að skapaóþarfa þjáningu fyrir villt dýr sem geta ekki varið sig,“ Árni Stefán Árnason lögfræðingur sem er einn sjálfboðaliðanna.

Fjöldi hreindýra hefur fest sig og særst í víraflækjum það sem af er ári og minnst tvö hafa drepist sem áður segir. Girðingar sem liggja niðri skapa mikla hættu fyrir dýr sem ganga úti og á það sérstaklega við um hreindýrstarfa sem á fengitímanum nudda gjarnan hornunum í jörðina og það sem fyrir verður.  

Náttúruverndarsamtök Austurlands gagnrýna athafnaleysi Hornafjarðar í málinu, en ár er liðið síðan Umhverfisstofnun sendi sveitarfélaginu bréf og vísaði í 12. Grein girðingarlaga þar sem kveðið er á um skyldu sveitarstjórna til að hreinsa burtu ónothæfar girðingar vanræki umráðamenn lands að gera það sjálfir. Í haust sendu svo Náttúruverndarsamtökin áskorun á sveitarfélagið, án viðbragða.

„Svona hefur þetta staðið í einhver ár, allar þessar lögformlegu leiðir hafa verið farnar án árangurs svo nú ætlum við að fara á staðinn og ræða við landeiganda og bjóða fram hjálp okkar við að taka niður þessa girðingu,“ segir Ásta Þorleifsdóttir sem situr í stjórn samtakanna. Hún bendir á að á þessu svæði hafi í ár verið heimilaðar veiðar á 8 törfum og nú séu að minnsta kosti 2 fallnir fyrir girðingu.

Bændur hafa meðal annars bent á að talsverður tilkostnaður hljótist af því að viðhalda girðingum sem hreindýr valdi tjóni á. Að sögn Náttúruverndarsamtaka Austurlands á það þó ekki við um þá girðingu sem hér um ræði. Hún hafi upphaflega verið sett upp til að halda nautgripum af túni, en undanfarin ár hafi engir nautgripir verið þar og hún þjóni því engum tilgangi lengur. Leysa verði málið áður en fleiri dýr verði fyrir skaða og svo sé hægt að leysa lögformlegu málin síðar, s.s. hvað varðar skaðabætur til bænda.

„Það er algjörlega ótækt að villt dýr séu fórnarlömb einhvers konar innansveitarkróniku," segir Ásta.

mbl.is